Skelfilegir skógareldar geysa í borginni og úthverfum hennar og sagðist Keith vera tilbúinn að „borga hvað sem er“ fyrir þá sem gætu lagt hönd á plóg.
Keith, sem er meðstofnandi fjárfestingarfyrirtækisins Gelt Venture Partners, á eign í Pacific Palisades þar sem ástandið er hvað verst. Slökkviliðsmenn hafa lagt nótt við dag í að verja heimili íbúa á svæðinu og takmarka útbreiðslu eldanna með skipulögðu slökkvistarfi.
„Er einhver með aðang að einkaslökkviliðsmönnum til að verja heimili okkar í Pacific Palisades? Þetta þarf að gerast hratt. Öll hús nágrannanna eru brunnin. Við borgum hvað sem er. Takk fyrir,“ sagði hann í færslu sinni á samfélagsmiðlum.
Hafi Keith haldið að hann fengi ábendingar um „einkaslökkviliðsmenn“ skjátlaðist honum því meirihluti athugasemda báru með sér harða gagnrýni á hann fyrir taktlausa beiðni á erfiðum tímum.
„Ótrúleg fífldirfska. Fjölskylda hans er komin í skjól og hann er að reyna að ráða slökkviliðsmenn til að hætta lífi sínu við að bjarga húsi sem er sennilega tryggt upp í rjáfur. Ótrúlega taktlaust,“ sagði einn.
Þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín í skógareldunum en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort manntjón hafi orðið.