Hæstiréttur hefur hafnað því að taka fyrir meiðyrðamál manns gegn fyrrverandi kærustu hans. Konan hafði í færslu á samfélagsmiðlum sakað manninn, án þess að nafngreina hann þó, um að hafa nauðgað sér árið 2011 á meðan sambandi þeirra stóð. Hún var sýknuð í bæði Héraðsdómi og Landsrétti ekki síst á þeim grundvelli að hún væri að lýsa eigin upplifun af samskiptum þeirra og að ekki væri öllum augljóst að færslan ætti við manninn.
Ummælin sem konan viðhafði á samfélagsmiðlum árið 2022 eru eftirfarandi samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur:
„Mér var grátandi nauðgað af manni sem lauk sér af og réttlætti í sömu andrá gjörðir sínar með því að drátturinn greiddi fyrir kostnað upp á 5000 krónur fyrir einhverju sem mér hafði fyrr um daginn verið boðið upp á. Þessi einstaklingur leit svo á að ég væri að ljúga upp á sig nauðgun eftir á, að verknaðurinn hefði verið níðingslegur, en ekki nauðgun. Hann sneri síðan upp á hendurnar á mér, til að þagga niður í vælinu í mér, svo illa að ég gat ekki notað þær í nokkra daga.“
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að atvikið átti sér stað árið 2011. Maðurinn vísaði til þess að þótt hann væri ekki nafngreindur í færslunni hafi verið augljóst að átt hafi verið við hann. Héraðsdómur sýknaði konuna og lagði meðal annars áherslu á að hún hefði ekki mafngreint manninn og hún hefði verið að lýsa sinni upplifun af samskiptum þeirra í umrætt sinn.
Í dómi Landsréttar er tekið undir með Héraðsdómi og vísað til þess að ekki væri hægt að ráða af ummælum konunnar að þau ættu við manninn, án þess að þekkja sérstaklega til aðstæðna. Hún hefði verið að lýsa eigin upplifun en í færslunni komi túlkun mannsins af atvikinu einnig við sögu.
Færslan var lengri en Landsréttur segir að ummælin hafi verið sett fram í almennri þjóðfélagsumræðu og að inngangur færslunnar hafi fjallað meðal annars um stöðu þolenda ofbeldis. Hún hafi því haft rúmt svigrúm til tjáningar sinnar sem hluta af þeirri umræðu og að ekki yrðu gerðar ríkar kröfur til að hún sýndi fram á réttmæti þeirra.
Landsréttur taldi ummælin ekki hafa falið í sér staðhæfingu um staðreynd heldur gildisdóm um eigin upplifun konunnar.
Í ljósi alls þessa komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að konan hefði ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns með ummælunum og var því sýknuð af kröfum mannsins um að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og henni gert að greiða honum miskabætur.
Í beiðni sinni um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar sagði lögmaður mannsins að helsta álitaefnið í málinu sé hvort það teljist gildisdómur í skilningi laga að saka einhvern um refsiverða háttsemi án þess að nokkuð styðji slíkar ásakanir. Einnig reyni á hvort maður geti losað sig undan ábyrgð á ærumeiðandi ummælum með því að nefna ekki nafn þess sem aðdróttun beinist að.
Vildi lögmaðurinn meina að í dómi Landsréttar hafi verið vikið langt frá fyrri úrlausnum dómstóla um muninn á gildisdómi og staðhæfingu um staðreynd. Það sé ósamrýmanlegt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í ærumeiðingamálum að fullyrðing um refsiverða háttsemi við tiltekið tækifæri teljist gildisdómur. Enn fremur samræmist það ekki dómaframkvæmd að það eitt að afmá nafn þess sem dróttað sé að teljist nægilegt til að tryggja honum friðhelgi einkalífs.
Hæstiréttur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki yrði talið að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Rétturinn er heldur ekki sammála því að það varði mikilvæga hagsmuni mannsins í skilningi laga um meðferð einkamála. Hæstiréttur gerir sömuleiðis engar athugasemdir við við dóm Landsréttar.