María Ögn Guðmundsdóttir hefur í tvo áratugi verið ein fremsta hjólreiðakona landsins . Maria Ögn sem er 43 ára segist nú standa á tímamótum á hjólreiðaferlinum og í viðtali við Bjarna Helgason ræðir hún íþrótta- og hjólreiðaferilinn, atvinnumennskuna og framtíðina.
Í viðtalinu rifjar María Ögn upp atvik árið 2020 þegar hún og sambýlismaður hennar urðu fyrir líkamárás í hjólaferð frá Þingvöllum. Segist hún hafa kært atvikið en ekkert hafi verið gert með kæruna.
Parið var að hjóla heim frá Þingvöllum ásamt félaga þeirra.
„Það koma þarna krakkar á tveimur bílum og þau ákveða að keyra alveg upp að Hafsteini og slá hann í andlitið með hvítri snúru út um bílgluggann.
Það verður til þess að hann fipast og hjólið mitt fer í hans hjól. Ég er nálægt því að detta en næ að halda mér með því að setja fótinn út. Fóturinn fer nánast í bílinn fyrir aftan okkur og ég held að fáir aðrir en ég hefðu getað bjargað sér út úr þessum aðstæðum. Þarna var ég að fara detta undir Land Cruiser en næ að bjarga mér. Þetta var stórt áfall en við ákveðum svo að hringja í lögregluna.“
María Ögn segir að um korteri síðar hafi ákveðin sturlun komið yfir hana.
„Af hverju er ráðist svona á mann? Fyrir hverjum er ég? Þetta var líkamsárás og ég fór heim og knúsaði litla barnið mitt. Ég var ógeðslega reið eftir þetta. Við kærðum þetta en það fór ekkert lengra þannig að það var ekkert gert í þessari líkamsárás.
Svona er þetta en það er alltaf að verða minna og minna um þetta. Það er líka leiðinlegt að tala um þetta því þá finnst manni eins og að heiftin verði meiri.“
Horfa má á viðtalið við Maríu Ögn hér.