Um fátt hefur verið rætt meira undanfarið en yfirlýstan áhuga Donald Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna eftir 12 daga, á að Bandaríkin kaupi Grænland. Í gær gekk hann síðan skrefinu lengra og hótaði að beita hervaldi til að komast yfir eyjuna gríðarstóru. Ummælin hafa vakið mikinn skjálfta meðal Dana, sem Grænland hefur heyrt undir í árhundruði, en Grænlendingar leggja áherslu á að þeir ráði örlögum sínum sjálfir og það hefur forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, tekið undir. Íslenskum útvarpsmanni líst hins vegar vel á hugmyndir Trump um landakaup og leggur til að Ísland bjóði sig Bandaríkjunum til kaups.
Þarna er á ferðinni Jón Axel Ólafsson sem hefur starfað í útvarpi hér á landi í nokkra áratugi. Jón Axel starfar nú hjá útvarpsstöðinni K100, sem er í eigu Árvakurs útgáfufélags Morgunblaðsins, en hann er einn umsjónarmanna síðdegisþáttarins Skemmtilegri leiðin heim. Jón Axel skrifar á bandaríska samfélagsmiðilinn Facebook:
„Spurning að leita eftir tilboði? Við fengjum græna kortið, dollara og meira af country tónlist.“
Færslan fær góðar undirtektir í athugasemdum:
„NKL og ekkert vesen og verðbólga.“
„Ódýrara bensín og stærri bíla.“
Í einni athugasemd er minnt á þá staðreynd að á sjöunda áratug 19. aldar höfðu bandarísk stjórnvöld mikinn áhuga á að kaupa bæði Grænland og Ísland en gerðu aldrei lokatilboð.
Síðan þá hafa Bandaríkin ekki sýnt því áhuga á að kaupa Ísland en horfðu hýru auga til Grænlands árin 1910, 1946, 2019 og svo í fimmta sinn núna.