„Það getur ekki hafa farið framhjá viðkomandi hvað gerðist,“ segir Erna Rán Arndísardóttir í stuttu spjalli við DV en hún varð fyrir því að ekið var á bíl hennar kyrrstæðan með þeim afleiðingum að vinstra brettið nánast flettist af bílnum en sá sem olli óhappinu lét sig hverfa af vettvangi.
Atvikið átti sér stað á bílaplani Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ í morgun. Erna Rán greinir þannig frá atvikinu á Facebook:
„Óska eftir vitnum – eða geranda!
Í morgun (08.01.2025), einhvern tíman á milli 8 og 11 var keyrt utan í bílinn okkar á bílastæðinu við FS (Fjölbrautaskóla Suðurnesja) – gerandi lét sig hverfa. Ef einhver veit meira – vinsamlega látið okkur vita – okkur þætti vænt um að fá þetta bætt.“
Í umræðum undir færslunni er Ernu Rán bent á að leita til skólans til að fá aðgang að upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Hún svarar þannig:
„Jú það eru myndavélar en þær virðast bara vera til skrauts Ná ekki yfir allt bílastæðið og svo eru einhverjir gámar á planinu sem eru þannig staðsettir að ekki sést allt planið – mjög skrítið allt saman. Þetta er svo glatað – guttinn búinn að leggja svoooo mikla vinnu í að eignast þennan bíl og alltaf að ditta að honum – og svo gerir einhver svona og bíllinn ekki gangfær nema að gera við hann fyrir hundruði þúsund.“