Grétar Freyr Baldursson hafði starfað hjá Norðuráli, álverinu á Grundartanga, í næstum tvo áratugi þegar hann fékk fyrirvaralausa uppsögn tæpri viku fyrir jól. Sagt var að leiðir hans og fyrirtækisins færu ekki saman lengur en uppsögnin kom viku eftir að hann hafði skrifað færslu á Facebook þar sem hann harmaði að komast ekki inn í svokallaðan Stóriðjuskóla fyrirtækisins. Grétar segir málið hafa fengið mikið á sig, enda segist hann hafa verið leiddur eins og sakamaður út úr fyrirtækinu og ekki fengið að kveðja samstarfsfélagana. Norðurál segir starfsfólki frjálst að tjá sig, á samfélagsmiðlum eða annars staðar.
„Ég skrifaði þetta í gríni af því að ég hafði oft sótt um,“ segir Grétar Freyr um Facebook færsluna sem hann setti inn þann 11. desember síðastliðinn. Þá hafði hann fengið enn eina höfnunina í Stóriðjuskólann, nám sem tryggir starfsmönnum 5 prósenta launahækkun.
Færslan var stutt, aðeins ein setning og skjáskot af höfnunarbréfinu. Í henni stóð:
„Það eru líklega meiri líkur á að fá inngöngu í Harvard Háskólann heldur en að reyna við þetta grunnnám.“
Starfsmenn Norðuráls geta sótt um að komast í skólann eftir þriggja ára starfstíma og hafði Grétar reglulega sótt um, enda starfað hjá fyrirtækinu í rúm 18 ár. Hann var orðinn þreyttur á að sjá starfsmenn með mun styttri reynslu fá inngöngu, meðal annars nýlega einn sem aðeins hafði starfað í 12 ár. Hann minnist einnig fyrir tveimur árum síðan að starfsmaður með langtum minni reynslu hafi fengið inngöngu. „Einn á minni vakt sem var tekinn inn var búinn að vinna í þrjú ár en ég var þá búinn að vinna í sextán ár,“ segir hann.
Fannst Grétari ítrekað fram hjá sér gengið. Hann væri með góða mætingu og hefði verið hrósað fyrir störf sín.
Rúmri viku eftir að Grétar setti inn færsluna var hann kallaður á fund. Það var fimmtudagurinn 19. desember, tæpri viku fyrir jól.
„Ég var að vinna mín störf og þá hringdi vaktstjórinn í mig,“ segir Grétar. „Hann spurði hvar væri hægt að nálgast mig en þá var ég staddur inni í steypuskála. Hann sagði að við værum að fara á fund hjá mannauðsstjóra og þá veit maður hvað það þýðir. Ég spurði hvort það væri að fara að reka mig en hann þóttist ekkert vita heldur gekk með mér í gegnum verksmiðjuna á fundinn.“
Segir Grétar hafa upplifað þennan dag sem ógeðfelldan og hann hafi verið skelfdur.
„Mér er mjög illa við þetta. Ég bjóst ekki við þessu. Hann gekk við hliðina á mér eins og ég væri í handjárnum á fundinn með mannauðsstjóra,“ segir Grétar en þar var honum afhent uppsagnarbréf og sagt að leiðir hans og fyrirtækisins lægju ekki saman lengur. Eftir það var honum fylgt út og hann keyrður heim. „Það var staðið yfir mér í búningsklefanum meðan ég var að skipta um föt og taka saman dótið mitt. Síðan var mér fylgt út á plan. Vaktstjórinn fór aldrei frá mér fyrr en bíllinn var kominn,“ segir Grétar.
Það situr í Grétari að hafa ekki fengið að kveðja samstarfsfélaganna. „Ég fékk ekki að hitta neinn. Þegar ég var kominn út í bíl þá var búið að henda mér út af Teams þannig að ég gat ekki kvatt fólkið þar,“ segir hann.
Hann segist seinna hafa heyrt í fyrrverandi samstarfsfélögum sínum sem hafi meðal annars sagt honum að þeir hefðu ekki þorað að setja „læk“ á Facebook færsluna hans af ótta við sömu örlög.
„Það er rosamikil óttamenning þarna. Búin að vera alveg í fleiri fleiri ár. Þrúgandi andrúmsloft,“ segir Grétar.
Grétar var keyrður heim með uppsagnarbréfið og fær þrjá mánuði borgaða í uppsagnarfrest. Hann segist enn þá vera að jafna sig á þessu. „Ég er búinn að vera heillengi að jafna mig á þessu. Þetta var mitt lífsviðurværi. Þetta voru alveg ömurleg jól.“
Málið hefur ratað inn á borð hjá Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins. Hann segir lítið hægt að gera.
„Fyrirtækin á hinum almenna vinnumarkaði hafa þann rétt að geta sagt upp fólki með því að fara eftir þeim lögbundna uppsagnarfresti sem kveðið er á um. Það var gert í þessu tilfelli,“ segir Vilhjálmur.
Hann geti í raun lítið tjáð sig um þetta mál. Það komi ekki fram í uppsagnarbréfinu að Facebook-færslan hafi verið ástæða uppsagnarinnar.
„Ef það er ástæðan þá er það ekki gott. En ég vara launafólk almennt við að passa sig á netinu. Það getur haft afleiðingar,“ segir Vilhjálmur. „Maður er orðinn öllu vanur. Það er töluvert mikið um uppsagnir þessa dagana.“
Í svari við fyrirspurn DV segir Margrét Rós Gunnarsdóttir, verkefnastjóri samskipta og samfélagsmála Norðuráls, að fyrirtækið geti ekki tjáð sig um mál einstakra starfsmanna. Aðspurð um hvort starfsfólk hafi óheft frelsi til að tjá sig á samfélagsmiðlum segir hún svo vera. Fólki sé frjálst að tjá sig, hvort sem er á samfélagsmiðlum eða annars staðar.