fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

„Af hverju fá andlitslausir embættismenn að fara sínu fram með þessum hætti?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 7. janúar 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Einar Stefánsson, fjölmiðlamaður bendir á grein sem læknir ritaði í Morgunblaðið í dag og gagnrýnir ríkisvæðingu Sjúkratrygginga Íslands á sjúklingatryggingu heilbrigðisstarfsfólks. Læknirinn segir að svo virðist sem að embættismenn hafi vísvitandi villt fyrir þingheimi til að réttlæta óþarfa ofurskattlagningu sem muni bitna á 34 heilbrigðisstéttum og á almenningi í formi stóraukins kostnaðar við heilbrigðisþjónustu.

Stefán Einar skrifar á Facebook að það sé óskiljanlegt hvernig andlitslausir embættismenn fái að vaða fram með þessum hætti, að krukka í kerfum og gera þau svifaseinni, dýrari og verri.

„Það er sláandi að lesa grein æðaskurðlæknisins og nafna míns í Mogganum í morgun þar sem hann upplýsir hvernig Sjúkratryggingar Íslands hafa nú ríkisvætt tryggingastarfsemi með þeim afleiðingum að það mun leiða stóraukinn kostnað yfir veikt fólk á Íslandi.

Tryggingafélög hafa sinnt þjónustu við heilbrigðisstarfsfólk um langt árabil. En ríkið seilist í fleiri og fleiri verkefni, ekki síst til þess að réttlæta tilvist sína (hjá Sjúkratryggingum starfa 126 manns!).

Af hverju fá andlitslausir embættismenn að fara sínu fram með þessum hætti? Það mætti réttlæta ef kerfið yrði skilvirkara, öruggara, og ódýrara. En sífellt heyrum við fréttir af því að Landlæknir (76 stöðugildi), Sjúkratryggingar, Lyfjastofnun (77 stöðugildi), og hvað þessar stofnanir allar heita, séu að breyta kerfum, krukka í þeim, og allt með þeim afleiðingum að kerfin verða svifaseinni, dýrari og þar með verri fyrir almenning í landinu.

Vonandi að Mannréttindastofnun Íslands muni bjarga málunum.“

Ævintýraleg hækkun iðgjalda

Stefán Einar deilir grein nafna síns, Stefáns E. Matthíassonar sem er sérfræðingur í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum.

Læknirinn Stefán bendir á að sjúklingatrygging er heilbrigðistrygging sem heilbrigðisstarfsfólki er skylt að hafa lögum samkvæmt ásamt starfsábyrgðartryggingu. Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk hefur hingað til keypt báðar tryggingarnar hjá tryggingafélögum á markaði gegn hóflegu gjaldi. Nú um áramót tóku ný lög um sjúklingatryggingu gildi þar sem sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki er gert skylt að hafa sjúklingatryggingu hjá SÍ en áfram þarf það að kaupa starfsábyrgðartryggingu hjá tryggingafélögum á markaði.

„Heilsugæslustöðvar og aðrar heilbrigðisstofnanir sem reknar eru af öðrum en ríki eða sveitarfélögum, auk heilbrigðisstarfsfólks sem starfar sjálfstætt, skulu greiða iðgjald til Sjúkratrygginga fyrir viðvikið. Opinberar stofnanir sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum eða stofnunum á þeirra vegum hins vegar ekki.“

Við þessa breytingu munu iðgjöld sjálfstætt starfandi hækka „ævintýralega“ frá því sem þurfti að greiða þegar sjúklingatryggingin var keypt á almennum markaði.
„Hér er um tuga og upp í hundruð % hækkanir að ræða sem nema frá tugum-, hundraða- eða milljónum króna í mörgum tilfellum. Erfitt er að henda nákvæma reiðu á heildarupphæð þessara hækkana en um er að ræða verulegar upphæðir sem líklega eru vel yfir 200 milljónir króna á ársgrundvelli. Gjaldskráin að baki þessu er að auki meingölluð og ógegnsæ.“

Embættismenn virðast hafa villt um fyrir þingheimi

Um 34 heilbrigðisstéttir er að ræða og segir Stefán að það þurfi að spyrja gagnrýnna spurninga um þessa ofurskattlagningu sem sé lögð á að nauðsynjalausu. Sérstaklega í ljósi þess að fyrirtæki í rekstri ríkis eða sveitarfélaga greiði ekkert iðgjald.

„Enn fremur er vert að hafa í huga að við meðferð Alþingis á nýju lögunum um sjúklingatryggingar var fullyrt ítrekað að sú kerfisbreyting sem í lögunum væri fólgin myndi ekki hafa í för með sér hækkun iðgjalda. Því var fátt um athugasemdir við þessi lög. Þeir embættismenn sem fluttu þessar fréttir virðast vísvitandi hafa villt um fyrir þingheimi.“

Lögum samkvæmt beri SÍ að taka árlega saman skýrslu til ráðherra um störf vegna sjúklingatryggingarinnar og þau mál sem hún afgreiðir. Eins upplýsa um málsmeðferð vátryggingafélaga á bótakröfum vegna sjúklingatrygginga. Þessi skýrsla á að vera aðgengileg almenningi. Þessari skyldu hafi SÍ ekki sinnt árum saman þrátt fyrir ábendingar. Stefán segir því vandséð hvernig iðgjöld voru metin án þessara upplýsinga.

Nýr forsætisráðherra hafi auglýst eftir tillögum til hagræðingar í ríkisrekstri. Þetta væri gott viðfangsefni hvað það varðar. Ef ekkert verði gert muni það setja gildandi samninga SÍ og 34 heilbrigðistétta í uppnám enda engin innistæða fyrir þessum útgjaldaauka.

Frumvarpið samþykkt einróma

Það var fyrrum heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sem flutti frumvarpið sem varð að þessum umdeildu breytingum í febrúar á síðasta ári. Markmið frumvarpsins var að samræma og einfalda kerfi sjúklingatrygginga og auka skilvirkni. Frumvarpið var unnið af starfshópi sem samanstóð af fulltrúum frá heilbrigðisráðuneytinu, Sjúkratryggingum Íslands og embætti landlæknis. Frumvarpið var samþykkt eftir þrjár umræður á Alþingi einróma af þeim þingmönnum sem voru viðstaddir. Áður gekk málið þó til velferðarnefndar Alþingis en nefndin fjallaði sérstaklega um hvort lagabreytingin hefði íþyngjandi áhrif á þá sem þyrftu að greiða iðgjöld til SÍ.

Segir í áliti meirihluta nefndarinnar:

„Fyrir nefndinni kom fram að þvert á móti ætti iðgjaldið með tímanum að verða í betra samræmi við áhættumat eftir heilbrigðisstéttum og eðli þjónustu, sökum þess að bótaskyld atvik verða tryggð á sama stað. Þá er iðgjaldinu eingöngu ætlað að standa undir greiðslu bóta og umsýslu vegna afgreiðslu tilkynntra mála, en ekki að skila hagnaði.“

Nefndin lagði áherslu á að með því að gera sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum að hafa sjúklingatryggingu hjá SÍ væri verið að bæta réttarstöðu tjónaþola með því að afnema þann greinarmun sem er gerður á því hjá hvaða stofnun eða aðila tjón verður.

Stefán E. Matthíasson er fyrrverandi formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og núverandi varamaður í stjórn, en tilgangur samtakanna er meðal annars að gæta hagsmuna sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja á Íslandi. Samtökin skiluðu umsögn við frumvarpið þar sem meðal annars var bent á að sjálfstætt starfandi heilbriðigsstarfsmenn eiga gjarnan í erfiðum samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands og því væri betra að fá sjálfstæðum og óháðum aðila að fara með framkvæmd og málsmeðferð sjúklingatrygginga. Eins hvöttu samtökin til þess að ríkisreknum aðilum væri eins gert að greiða iðgjöld en ekki bara einkareknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“