Héraðssaksóknari hefur ákært mann á þrítugsaldri, Aðalsteinn Unnarsson, fyrir manndrápstilraun á heimili sínu að Frostafold í Reykjavík. Meint brot var framið síðastliðið haust, þann 9. október.
Aðalsteinn er sakaður um að hafa veist að manni með hnífi og stungið hann ítrekuðum hnífstungum í búk, höfuð og útlimi og þannig reynt að svipta hann lífi. Brotaþoli hlaut lífshættulega stunguáverka á brjóstkassa og fleiri alvarlega áverka.
Fyrir hönd brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð sex milljónir króna.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
DV greindi frá því í október síðastliðnum, skömmu eftir að Aðalsteinn á að hafa framið ofanefnt brot, að hann væri ákærður fyrir manndrápstilraun í Mosfellsbæ í febrúar árið 2021. Í fréttinni segir:
„Héraðssaksóknari hefur ákært mann að nafni Aðalsteinn Unnarsson fyrir tilraun til manndráps. Honum er gert að sök að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 2. febrúar árið 2021, á bílastæði við Háholt 9 í Mosfellsbæ, veist að manni og stungið hann með hnífi í kviðinn og þannig reynt að svipta hann lífi. Hlaut brotaþolinn 2-3 cm opið stungusár á kvið og stóð um 10 cm langur þarmur út um sárið.“