Rússar hafa lengi sótt skriðdreka í gamlar birgðageymslur, skriðdreka frá tíma Sovétríkjanna. Þeir þykja frekar auðveld skotmörk á vígvellinum enda ekki hannaðir til notkunar í nútímahernaði.
Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) skýrir frá þessu og byggir þetta á upplýsingum frá Orest Drimalovskyi, talsmanni úkraínskrar herdeildar í Donetsk. Hann sagði að Rússar sendi nú fótgönguliða fram á vígvellinum og noti brynvarin ökutæki aðeins sem stórskotalið til stuðnings fótgönguliðunum.
Þessi frásögn hans kemur heim og saman við það sem kom nýlega fram í The New York Times en þar kom fram að rússneskir hermenn noti nú hlaupahjól, mótorhjól og fjórhjól þegar þeir gera árásir í austurhluta Úkraínu. Úkraínska Azov-herdeildin birti nýlega myndband af rússneskum hermönnum sækja fram á slíkum farartækjum.
ISW telur að Úkraínumenn hafi eyðilagt eða skemmt rúmlega 3.000 rússneska skriðdreka og tæplega 9.000 brynvarin ökutæki á síðasta ári.