Eldur kviknaði í Mersedes-Benz jeppa sem stóð fyrir utan verslunarmiðstöðina Fjörð í Hafnarfirði fyrir skömmu síðan. Engin meiðsli urðu á fólki.
„Það var maður, eigandi, inni í bílnum sem fór út úr honum þegar fór að rjúka úr honum,“ segir Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Eldurinn kom um klukkan 15:15 í dag og safnaðist talsvert stór hópur af fólki við fyrir framan verslunarmiðstöðina og fylgdist með brunanum. Búið var að slökkva eldinn að mestu áður en slökkvilið kom á staðinn.
„Það var búið að slökkva með handslökkvitækjum á staðnum,“ segir Stefán. „Við gengum úr skugga um að það væri ekki meira og slökktum smáeld.“
Að sögn Stefáns er bíllinn töluvert tjónaður eftir eldinn.