Skiptum er lokið á útgáfufélaginu Svalbard Music Group, sem miklar deilur Sólstafamanna hvörfuðust um fyrir nærri áratug síðan.
Greint er frá þessu í Lögbirtingablaðinu í dag. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur voru rúmar 4,5 milljón króna.
Svalbard Music Group var stofnað af Aðalbirni Tryggvasyni, söngvara og gítarleikara Sólstafa, og Guðmundi Óla Pálmasyni, fyrrverandi trommara. Eini tilgangur félagsins var að halda utan um útgáfu þungarokkssveitarinnar sem stofnuð var árið 1995.
En í janúarbyrjun árið 2015 sendi Aðalbjörn Guðmundi Óla bréf þar sem honum var tilkynnt að hann hefði verið rekinn úr sveitinni. Skömmu seinna var birt tilkynning um að Aðalbjörn hefði verið rekinn sem framkvæmdastjóri Svalbard Music Group.
Guðmundur Óli var ekki sáttur við uppsögnina og höfðaði mál fyrir dómstólum um nafnið Sólstafi. Árið 2018 felldi Einkaleyfastofa heitið úr gildi en sveitin gefur enn þá út og spilar undir því nafni.
Félagið Svalbard Music Group var úrskurðað gjaldþrota árið 2017 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Skiptin hafa því tekið um átta ár.