Alfreð Erling Þórðarson sem ákærður er fyrir að hafa orðið tveimur eldri hjónum að bana á heimili þeirra í Neskaupstað í ágúst á síðasta ári neitaði sök við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Austurlands fyrr í dag.
Arnþrúður Þórarinsdóttur saksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara staðfesti þetta í skriflegu svari við fyrirspurn DV. Hún segir að þinghaldi hafi ekki verið lokað að minnsta kosti að svo stöddu.
Hún segir að málinu hafi verið frestað til 16. janúar næstkomandi en það er til að verjandi Alfreðs Erlings hafi tök á því að skila greinargerð. Arnþrúður segir að ekki hafi verið ákveðinn tími fyrir aðalmeðferð málsins.
Eins og DV hefur áður greint frá voru hjónin myrt með afar hrottalegum hætti en í ákæru kemur fram að hamri hafi verið beitt.
Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri
Alfreð Erling var handtekinn í Reykjavík á bíl hjónanna daginn eftir atburðinn.
Samkvæmt heimildum DV verður Alfreð Erling mögulega úrskurðaður ósakhæfur vegna andlegra veikinda sinna en fjögur börn hjónanna krefjast samtals um 45 milljóna króna í miskabætur frá honum.
Alfreð Erling hefur lengi glímt við geðræn veikindi og höfðu íbúar á svæðinu áhyggjur af honum en óraði ekki fyrir að hann væri fær um að fremja jafn hrottalegan verknað og hann hefur nú verið ákærður fyrir.
Morðin í Neskaupstað: Íbúar höfðu lengi haft þungar áhyggjur af Alfreð Erling