Flugfélagið Cathay Pacific Airways hefur beðið farþega afsökunar á 54 klukkustunda töfum vegna neyðartilviks. Farþegi veiktist og lenda þurfti með hann á Íslandi.
Cathay Pacific Airways hefur höfuðstöðvar í borginni Hong Kong. Miðillinn Hong Kong Transport greinir frá því að í gær, föstudaginn 3. janúar, hafi vél félagsins verið á leiðinni frá Toronto til Hong Kong þegar atvikið kom upp.
Farþegi veiktist og þurfti bráða aðhlynningu. Næsti flugvöllur var Keflavík og því var ákveðið að lenta þar með manninn.
Eftir að manninum var komið á spítala og búið var að taka bensín á vélina var hins vegar ákveðið að halda ekki áfram til Hong Kong heldur snúa aftur til Toronto. Ástæðan var sú að vegna reglna um hvíldartíma áhafnar þurfti að skipta um áhöfn í Kanada.
Þetta orsakaði alls 54 klukkustunda töf fyrir farþegana og eins og áður segir hefur flugfélagið beðið þá afsökunar.