Settur hefur verið á laggirnar undirskriftalisti gegn framkvæmdunum við Álfabakka 2A til 2D sem liggja við hliðina á Árskógum í Breiðholti.
„Undirrituð gera alvarlegar athugasemdir vegna framkvæmda við Álfabakka 2A-2D, 109 Reykjavík. Við álítum að húsið og starfsemin sem þar á að vera sé algjörlega á skjön við samfélagið, gangi gegn markmiðum skipulagslaga og stefnu Reykjavíkurborgar í grænni byggð,“ segir í tilkynningu með undirskriftalistanum á síðunni island.is.
Segir að íbúar séu uggandi yfir möguleikanum á stóraukinni umferð, sér í lagi vegna þungaflutninga, um svæðið. Efast þeir að framkvæmdirnar standist mat á umhverfisáhrifum. Einnig telja þeir að byggingarmagn og hæð byggingarinnar muni hafa mikil áhrif á skuggavarp og valda skerðingu á sólarljósi, sem muni hafa mjög neikvæð áhrif á lífsgæði íbúa nærliggjandi húsa.
Þá telja íbúar að málsmeðferð þessa máls hafi verið fyrir neðan allar hellur og langt frá því í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Samráð og upplýsingaflæði Reykjavíkurborgar hafi verið ófullnægjandi og ekki uppfyllt kröfur stjórnsýslu eða skipulagslaga.
„Við krefjumst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan unnið er að farsælli lausn málsins öllum í hag,“ segir að lokum.
Undirskriftalistann mál nálgast hér en hann rennur út þann 24. janúar næstkomandi.