Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, festi bílinn sinn illa í Vesturbænum. Þá kom aðvífandi hetja á pípulagningarbíl, hjálpaði henni en hvarf svo á braut án þess að hún gæti þakkað nægilega fyrir sig.
„Varð fyrir því óláni að festa bílinn minn í skafli svo rassinn á honum teppti umferð um Ægisíðuna,“ segir Þóra Kristín í færslu á samfélagsmiðlum í dag.
Vissi hún ekki fyrr en maður á bíl, merktum pípulagningarfyrirtækinu FP lagnir ehf, stöðvar og snarast út. Losaði hann bílinn fyrir hana en það tók mjög langan tíma.
„Hann mokaði og ýtti og linnti ekki látum fyrr en það tókst,“ segir Þóra Kristín. „Svo snaraðist hann upp í bílinn aftur og ók burt og ég náði varla að þakka honum fyrir. Þvílík hetja.“
Segir hún í lok færslunnar, sem hefur fengið mjög góð viðbrögð, að FP lagnir hljóti að vera frábært fyrirtæki ef hann sé alltaf svona.