Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, tók að sér að greina áramótaávörp hér á Íslandi sem og í Danmörku og bera þau saman. Greinin hans leiddi í ljós að hér er slíkum ávörpum ekki sýnd viðeigandi virðing hjá ríkissjónvarpi þjóðarinnar.
Björn skrifaði á Facebook að það hafi verið forvitnilegt að fylgjast með því hvernig danska ríkisútvarpið bjó dönsku þjóðina undir fyrsta áramótaávarp Friðriks X konungs. Þetta var fyrsta áramótaávarp hans en áður hafði móðir hans, Margrét II, flutt ávarpið í rúma hálfa öld.
„Ríkissjónvarpið, DR1, setti upp búnað fyrir beina útsendingu á hallartorginu fyrir framan Amalienborg í Kaupmannahöfn þar sem konungur flutti ræðu sína í beinni útsendingu klukkan 18.00 að dönskum tíma. Hófst útsending sjónvarpsins klukkan 16.00.
Ríkissjónvarpið, DR1, setti upp búnað fyrir beina útsendingu á hallartorginu fyrir framan Amalienborg í Kaupmannahöfn þar sem konungur flutti ræðu sína í beinni útsendingu klukkan 18.00 að dönskum tíma. Hófst útsending sjónvarpsins klukkan 16.00.
Eftir ræðuna gáfu álitsgjafar DR1 ræðunni og ræðumanni mjög góða einkunn auk þess sem fréttamaður fór um hallartorgið og leitaði álits hjá almennum borgurum sem þar stóðu og fylgdust með ræðunni á skjám. Þeir voru einnig mjög sáttir við ræðuna. Síðar hefur verið bent á að konungurinn hefði mátt tala meira um Grænland.“
Ekkert sambærilegt var gert hér á landi og það þrátt fyrir að áramótaávörp kæmu frá nýjum forsætisráðherra, nýjum biskup og nýjum forseta.
„Þess var ekki einu sinni getið í fyrstu fréttum ríkisútvarpsins klukkan 10.00 að morgni nýárdags hvað bar hæst í ávarpi Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra kvöldið áður og því síður var minnt á að hlusta mætti á ræðu biskups í messu í Dómkirkjunni kl. 11.00 og ávarp forseta klukkan 13.00 auk þess sem því yrði sjónvarpað.“
Þess í stað var í morgunfréttum fjallað um dagbók lögreglu og heldur ómerkilegar fréttir frá Bandaríkjunum um að stuðningsmaður Trump sem tók þátt í áhlaupinu á þinghúsið 6. janúar 2021 ætlaði sér að sækja um pólitískt hæli í Kanada.
Björn mælir með því að Ríkisútvarpið setji sér viðmið um fréttir á stórhátíðardögum í samræmi við nágranna okkar á Norðurlöndum.
„Það ætti að marka ríkisútvarpinu og ekki síst fréttastofu þess ný viðmið um fréttir á stórhátíðisdögum í samræmi við þann anda sem þá setur mestan svip á hug landsmanna. Norrænu ríkisútvörpin og ekki síst Danir kunna þetta. Þar líta menn á það sem mikilvægt þjónustuhlutverk að sýna konungsfjölskyldunni virðingu og efla þannig danska þjóðarvitund.“