Rétt fyrir jól kvað Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa upp úrskurð sinn vegna kæru manns en kæruefnið varðaði viðskipti hans við ónefnt fyrirtæki sem hafði annast kaup og innflutning á notaðri bifreið fyrir hann. Vildi maðurinn meina að bifreiðin hefði verið haldin galla og vildi fá kostnað sem hann hefði þurft að leggja út fyrir, vegna þessa, endurgreiddan. Nefndin hafnaði því hins vegar einkum á þeim grundvelli að maðurinn hefði ekki gefið fyrirtækinu svigrúm til að bæta sjálft úr en það var símtal á milli málsaðila sem gerði útslagið í málinu.
Maðurinn keypti bifreiðina í janúar 2022 en hún er árgerð 2020 og var við kaupin ekin 13.250 kílómetra. Maðurinn greiddi fyrirtækinu 25.000 krónur fyrir að finna bifreið til kaups fyrir sig og sá það alfarið um kaupin og innflutninginn. Kaupverðið var, með öllum innflutningsgjöldum, um 14,8 milljónir króna sem maðurinn greiddi inn á bankareikning fyrirtækisins.
Bifreiðin var afhent í mars 2022 og kom þá strax í ljós að hún var rafmagnslaus. Það tókst að koma henni í gang en maðurinn sagði að þegar hafi verið ljóst að rafgeymir hennar virkaði ekki sem skyldi. Skilaboð birtust síðan í mælaborði bifreiðarinnar þar sem fram kom að nauðsynlegt væri að færa hana til þjónustuskoðunar.
Umboðsaðili umræddrar bifreiðategundar á Íslandi er ekki sama fyrirtæki og annaðist kaupin fyrir manninn. Hann fór með bifreiðina, sem hægt er að nota sem húsbíl, í þjónustuskoðun til umboðsaðilans sem tjáði honum að skipta hafi þurft um minni rafgeyminn í bifreiðinni, sem hafi verið ónýtur.
Krafði maðurinn fyrirtækið sem um greiðslu kostnaðar við skoðunina og að skipta um rafgeyminn, alls um 165.000 krónur.
Byggði maðurinn kröfu sína á því að fyrirtækið hefði veitt honum þær upplýsingar í skýrslu að ástand bifreiðarinnar væri mjög gott og ekki væri nein þörf á viðgerð.
Hann sagðist hafa upplýst fyrirtækið um ástandið sem hafi hvatt hann til að fara með bifreiðina í skoðun og viðgerð.
Fyrirtækið fullyrti hins vegar að maðurinn hefði ekkert samráð haft við það um viðgerðina og bauð honum lægri endurgreiðslu en hann krafðist. Fyrirtækið sagðist eingöngu hafa verið milligönguaðili um kaupin en bæri ekki ábyrgð með seljanda á hugsanlegum göllum. Sagði það manninn hafa í símtali upplýst um að hann hefði farið með bifreiðina í þjónustuskoðun og að rafgeymirinn væri líklega í ólagi. Sagðist fyrirtækið hafa þá upplýst manninn um að ef skipta þyrfti út rafgeyminum yrði að gera seljanda bifreiðarinnar viðvart um það svo unnt væri að bæta úr. Hafi maðurinn ætlað að láta vita ef eitthvað sérstakt kæmi upp við skoðunina en hafi svo ekki gert það.
Fyrirtækið sagðist hafa haft samband við seljanda bifreiðarinnar, umboðsaðila viðkomandi tegundar í því landi sem bifreiðin var keypt en það kemur ekki fram í úrskurði kærunefndarinnar um hvaða land er að ræða. Sagði það seljandann hafa greint frá því að rafgeymirinn hafi verið í góðu lagi þegar bifreiðin var afhent flutningsaðila. Fyrirtækið sagði ekkert liggja fyrir um ástæður bilunar rafgeymisins og maðurinn gæti allt eins sjálfur borið ábyrgð á henni.
Í niðurstöðu Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að ekki sé annað hægt en að líta á fyrirtækið sem hinn eiginlega seljanda bifreiðarinnar þar sem hið erlenda fyrirtæki sem sagt sé seljandinn sé hvergi nafngreint í gögnum málsins og að fyrirtækið hafi í öllum samskiptum og samningum við manninn komið fram sem seljandi.
Nefndin hafnar þeirri kröfu mannsins að fyrirtækið endurgreiði honum kostnað við þjónustuskoðunina þar sem skýrt komi fram í skjali með þjónustusögu bifreiðarinnar að þjónustuskoðun eigi að fara fram á tveggja ára fresti. Bifreiðin hafi verið nýskráð í byrjun mars 2020. Skoðunin hafi farið fram í lok mars 2022. Þjónustuskoðun sé eðlilegt viðhald á bifreið og ekki sé hægt að krefjast þess að seljandi greiði fyrir hana.
Hvað varðar rafgeyminn segir nefndin að framlagður reikningur skýri ekki nægilega vel bilunina og ekki liggi fyrir hvort hana megi rekja til rangrar notkunar af hálfu mannsins en ljóst sé þó að ending rafgeymisins hafi verið óeðlilega stutt.
Í niðurstöðu nefndarinnar er vísað til upptöku af áðurnefndu símtali milli mannsins og fyrirtækisins. Þar hafi skýrt komið fram að fyrirtækið hefði tjáð manninum að ef það kæmi í ljós að skipta þyrfti um rafgeyminn yrði það að fá tækifæri til að upplýsa seljanda bifreiðarinnar um slíkt og fá fram afstöðu hans. Í lok símtalsins hafi maðurinn sagt að hann myndi láta fyrirtækið vita ef eitthvað sérstakt kæmi upp í skoðuninni. Ekki verði hins vegar ráðið af gögnum málsins að hann hafi upplýst fyrirtækið um það mat fagaðila að minni rafgeymirinn væri ónýtur og skipta þyrfti honum út. Það hafi hann þó látið gera og í kjölfarið krafist endurgreiðslu.
Það er því niðurstaða nefndarinnar að maðurinn hafi ekki veitt fyrirtækinu fullnægjandi tækifæri til að meta hvort rafgeymirinn væri gallaður og ef svo væri, bæta þá úr með afhendingu á nýjum rafgeymi. Það standist ekki lög um neytendakaup. Kröfu hans um endurgreiðslu vegna kostnaðar við að skipta um rafgeymi í bifreiðinni var því hafnað.