Blaðið fjallar um áform um framkvæmdir við þjóðarhöll innanhússíþrótta og þjóðarleikvanga í knattspyrnu og frjálsum íþróttum sem talað hefur verið um býsna lengi. Er bent á það í umfjölluninni að fimm starfshópar, tvö undirbúningsfélög og framkvæmdanefnd hafi verið stofnuð frá árinu 2015 vegna fyrrgreindra áforma. Þá hafa tvö erlend ráðgjafafyrirtæki komið að málinu.
Þrátt fyrir allt þetta hefur engin skóflustunga verið tekin. Fyrir viku undirrituðu fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar, KSÍ og FRÍ viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal. Fyrsti áfangi í uppbyggingu þjóðarleikvangs í fótbolta veðrur að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir svokallað hybrid-gras og setja hitunarkerfi undir völlinn.
Hildur segir við Morgunblaðið í dag að það sé hlægilegt að enn ein viljayfirlýsingin hafi verið undirrituð í aðdraganda kosninga. Ekki sé um neitt annað að ræða en „grímulausa kosningabrellu“.
„Það er alltaf verið að klippa borða og undirrita viljayfirlýsingar stuttu fyrir kosningar,“ segir Hildur við Morgunblaðið og bætir við að mörgu sé lofað en efndir séu litlar.