Þessari spurningu varpar Úrsúla Jünemann, kennari á eftirlaunum, fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Úrsúla dregur ekki fjöður yfir það að búa þurfi vel að afbrotamönnum ef þeir eigi að feta rétta braut eftir afplánun en í þjóðfélaginu séu aðrir hópar sem ekki þarf síður að sinna.
Hún rifjar upp að nýlega hafi hún þurft að leggjast inn á Landspítalann vegna smá aðgerðar og dvaldi hún þar í viku.
„Þar deildi ég herbergi með aldraðri konu með heilabilun. Hún veinaði og kallaði stanslaust og lítið var um svefn. Hjúkrunarkonurnar sinntu henni með alúð og þolinmæði og ég dáðist að þeim. Svona sjúklingar taka mikinn tíma frá starfsfólkinu sem er alltaf á hlaupum og gerir sitt besta. Þar sem ég varð fljótlega sjálfbjarga fannst mér mig ekki skorta neitt. En þetta er auðvitað slæmt ástand. Eftir aðra svefnlausa nótt fékk ég að skipta um herbergi. En hróp og köll frá vesalings konunni heyrðust um alla deildina,“ segir Úrsúla í grein sinni.
Hún segir að það sé ekki spurning að svona einstaklingur þurfi að fá sérúrræði og þjónustu. En málið sé að bið eftir plássi á hjúkrunarheimili er löng.
„Gömlu og ósjálfbjarga fólki sem á engan að er gert að dvelja áfram á spítala. Það er auðvitað slæmt mál og veldur plássleysi fyrir aðra sem þurfa að komast að í meðferð.“
Úrsúla veltir því fyrir sér hvernig hugsað er um eldra fólk í okkar þjóðfélagi og bætir við að auðvitað þurfi margir í þeim hópi aukna heilbrigðisþjónustu. Spyr hún hvort þeir eigi það ekki inni eftir að hafa unnið og búið í haginn fyrir komandi kynslóðir í áratugi.
„Það er ólíðandi að þessi hópur sé sífellt settur aftast í forgangsröðina. Það er klárlega meira áríðandi að byggja fleiri hjúkrunarheimili en glænýtt lúxusfangelsi þó að þar dvelji upp til hópa ungir og frískir menn. Menn sem gætu seinna meir orðið að þjóðfélagsþegnum sem gagn er að. Við skuldum gamla fólkinu hins vegar að það geti lifað á síðasta æviskeiði sínu með reisn og vellíðan.“