fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Útlendingastofnun biðst afsökunar: Sökuðu Íslandsvin um lögbrot sem hann hafði ekki framið

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 4. september 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í ákvörðun sinni um brottvísun skosks-norsks manns frá landinu, Brian McMenemy, staðhæfði Útlendingastofnun að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefði maðurinn gerst sekur um að aka bíl án réttinda og framvísa fölsuðu ökuskírteini. Brian þessi hefur í viðtali við DV þvertekið fyrir það að hafa framið þetta lögbrot og segist hafa verið staddur úti á sjó við fiskveiðar þegar brotið á að hafa verið framið, þann 22. júní síðastliðinn.

DV fjallaði fyrr í vikunni um málefni Brians sem hefur verið gerður brottrækur frá Schengen-svæðinu í fimm ár þrátt fyrir að hann sé fæddur og uppalinn í Noregi og eigi norska móður, eigi son undir lögaldri í Svíþjóð, hafi stundað sjómennsku frá Íslandi í tvo áratugi og eigi hér fjölmarga vini og samstarfsfólk. Þessi fordæmalitlu vandræði Brians stafa af lögreglusekt í Noregi sem hann neitaði að greiða, þar sem hann álítur hana tilhæfulausa, og þeirri staðreynd að Skotland er, eftir Brexit, ekki lengur hluti af Schengen-svæðinu. Brian er eingöngu með skoskan ríkisborgararétt en ekki norskan.

Sjá einnig: Íslandsvini úthýst af Schengen-svæðinu vegna lögreglusektar – „Þau vilja gera mig atvinnulausan og heimilislausan“

Í kjölfar þess að Brian neitaði að greiða lögreglusekt gáfu norsk yfirvöld út úrskurð þar sem honum er meinuð för á Schengen-svæðinu í fimm ár. Málið er mjög óvenjulegt, enda um að ræða mann sem hefur lifað og starfað á Norðurlöndum bróðurpart ævi sinnar, en er núna meinaður aðgangur að þeim löndum og stórum hluta Evrópu vegna ógreiddrar lögreglusektar.

Áðurnefndar rangfærslur Útlendingastofnunar í ákvörðun um brottvísun Brians frá landinu eru aðeins lítill hluti málsins en munu líklega draga dilk á eftir sér. Stofnunin hefur í kjölfar afskipta DV af málinu viðurkennt mistökin og beðið afsökunar.

Upplýsingarnar komu ekki frá lögreglunni á Vestfjörðum

Í lýsingu Útlendingastofnunar á brotinu sem aldrei var framið segir:

„Kvaðst Brian Mcmenemy hafa dvalið hér á landi frá því í janúar eða febrúar 2024 þegar lögregla hafði afskipti af honum 22. júní 2024. Kemur þar einnig fram að lögregla hafi haft afskipti af Brian Mcmenemy þegar hann ók ökutæki og framvísaði Brian Mcmenemy grunnfölsuðu ökuskírteini gagnvart lögreglu.“ 

Ráða má af textanum í heild og samhengi málsins að þessari upplýsingar hafi komið frá Lögreglunni á Vestfjörðum. Svo reyndist ekki vera. Í svari Helga Jenssonar, lögreglustjóra á Vestfjörðum, við fyrirspurn DV, segir:

„Eins og ég sagði þér í símtali í gær, má ég ekki ræða einstök mál eins og þetta, við fjölmiðla. Ég get hins vegar upplýst að þetta atriði sem þú nefnir, um akstur á bíl og falsað ökuskírteini er ekki úr gögnum lögreglu í þessu máli.

Auk yfirmanna í lögreglunni á Vestfjörðum, set ég Brynjar Júlíus Pétursson, teymisstjóra í útlendingastofnun í cc. Ég tel rétt að þú leitir upplýsinga hjá honum um þetta atriði, ef þú hefur áhuga á frekari upplýsingum.“

Í samræmi við svar lögreglustjórans sendi DV fyrirspurn á Útlendingastofnun í gær þar sem óskað var eftir skýringum á því að þessar upplýsingar, sem virðast rangar, hefðu birst í úrskurði stofnunarinnar á hendur Brian. Svar barst í dag og segir þar:

„Málsgreinin sem þú vísar til í fyrirspurninni var inni í málsatvikakafla ákvörðunarinnar fyrir mistök. Útlendingastofnun fékk þessar upplýsingar ekki frá lögreglunni í tengslum við mál Brian McMenemy. Stofnunin hefur þegar sent Brian leiðrétta ákvörðun og beðið hann afsökunar á þessum mistökum. Þá mun stofnunin einnig yfirfara vinnulag til að koma í veg fyrir að slík mistök endurtaki sig.“

DV hefur undir höndum skilaboð Útlendingastofnunar til Brians um þetta og þar segir að upplýsingar um annan aðila hafi fyrir mannleg mistök ratað í úrskurðinn yfir honum. DV mun freista þess að kanna trúverðugleika þessarar skýringar á næstunni.

Var handtekinn við brottför

Brian átti bókað flug til Kaupmannahafnar á mánudagsmorgun, þaðan sem hann hugðist fara til Svíþjóðar til að hitta þar 16 ára gamlan son sinn. Hann var hins vegar handtekinn á Keflavíkurflugvelli á grundvelli þess að honum væri óheimilt að koma til Danmerkur. Hann flaug til Glasgow í Skotlandi í gær.

Íslenskur lögmaður hefur tekið að sér að gæta réttinda Brians gagnvart íslenskum stjórnvöldum. DV mun halda áfram að greina frá málum Brians McMenemy síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hraunið fer brátt að renna inn á bílastæði Bláa lónsins – Sjáðu myndina

Hraunið fer brátt að renna inn á bílastæði Bláa lónsins – Sjáðu myndina
Fréttir
Í gær

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“