Trausti Breiðfjörð Magnússon tilkynnti í dag að hann myndi hætta sem borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins frá og með deginum í dag. Ástæðan er heilsubrestur.
„Þetta var ekki auðveld ákvörðun en ég stend við hana,“ segir Trausti í færslu á samfélagsmiðlum. „Undanfarið ár hef ég verið að glíma við veikindi og því verið í leyfi til að setja heilsuna í forgang. Það hefur gengið vel og sem betur fer er heilsan á uppleið. Ég veit þó að ég get ekki snúið aftur til vinnu í borgarstjórn, þar sem mikillar orku og vinnuframlags er krafist. Það væri hvorki greiði gerður við mig, félaga mína í flokknum né borgarbúa að fá mig til starfa í því ástandi sem ég er í. Eftir mikla íhugun er þetta því niðurstaðan.“
Trausti, sem var stuðningsfulltrúi og nemi, var kjörinn borgarfulltrúi í kosningunum árið 2022. Hann var annar á lista Sósíalista og var síðasti borgarfulltrúinn til að ná kjöri, númer 23. Sæti hans tekur Andrea Jóhanna Helgadóttir, leikskólastarfsmaður.
„Það var heiður lífs míns að fá að gegna þessu hlutverki. Ekki bara því ég fékk að þjóna íbúum, heldur vegna þess að ég kynntist svo mikið af góðu fólki sem opnaði augu mín fyrir öllu því sem er að gerast í Reykjavík. Ég er reynslunni ríkari og er viss um að ég get nýtt hana til að hjálpa öðrum og miðla þekkingunni áfram,“ segir Trausti í færslunni. Það sem taki við núna sé að ná sér af veikindum og sinna barni sem komi í heiminn eftir nokkra mánuði.