Ásgeir Bolli Kristinsson hefur beðist afsökunar á ummælum sínum um Sjálfstæðiskonur. Afsökunarbeiðnina bar hann upp í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.
„Þetta var frekar óheppileg samlíking sem ég hafði nú í útvarpinu,“ sagði Bolli.
Bolli, kenndur við verslunina 17, hefur viðrað hugmyndir um að boðinn yrði fram svokallaður DD listi, sem óánægðir Sjálfstæðismenn gætu kosið.
Ummæli hans um konur í viðtali við Vísi féllu hins vegar í grýttan jarðveg. Sagði hann:
„Við erum ekkert að leita að einhverjum, hvað á ég að kalla það. Einhverjum nýútskrifuðum stúlkum sem ætla bara að blása á sér hárið og naglalakka sig. Þó ég hafi fulla virðingu fyrir ungu fólki þá þurfum við fólk með reynslu og eitthvað fólk sem hefur áunnið sér eitthvað í lífinu.“
Á meðal þeirra sem létu í sér heyra voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Friðjón Friðjónsson borgarfulltrúi.