fbpx
Mánudagur 30.september 2024
Fréttir

Óleyfisframkvæmdirnar í Vogum – Leigjendur í leyfislausum íbúðum án salernis og sturtu

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 30. september 2024 15:00

Umrædd íbúð er í Vogum á Vatnsleysuströnd. Mynd: Eysteinn Guðni Guðnason - CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=137664541

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV greindi frá fyrir helgi staðfesti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá niðurstöðu byggingarfulltrúa sveitarfélagsins Voga að eigandi íbúðar í fjöleignarhúsi í bænum hefði í leyfisleysi skipt íbúðinni í tvær minni íbúðir auk þess að breyta bílskúr í íbúð. Eigandinn brást við niðurstöðunni með því að aftengja klósett og sturtu í íbúðinni í bílskúrnum sem og í þeim hluta íbúðarinnar í húsinu sjálfu sem breytt hafði verið í aðskilda íbúð. Meðal krafna sveitarfélagsins var að eigandinn myndi færa íbúð sína sem og bílskúrinn í fyrra horf. Eigandinn segist ekki ætla að segja leigjendunum í leyfislausu íbúðunum upp leigunni. Byggingarfulltrúi sveitarfélagsins segir að málið sé til skoðunar.

Neitar því að hafa breytt íbúðinni og segist þolandi eineltis

Það er niðurstaða byggingarfulltrúa sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti að það sé bara leyfi í húsinu fyrir einni íbúð en að ekki sé leyfi fyrir íbúð í bílskúrnum og heldur ekki í því rými innan íbúðarinnar í húsinu sem gert var að sérstakri íbúð.

Samkvæmt heimildum DV kom eigandinn sem býr ekki sjálfur í húsinu á staðinn fyrir helgi, eftir að úrskurður nefndarinnar hafði fallið, með stóran húsbíl og sagt eldri konu sem hefur leigt íbúðina í bílskúrnum að hún ætti að gista þar í staðinn.

Samkvæmt 12. grein lögreglusamþykktar fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum er ekki heimilt við alfaraleið í byggð að gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum, fellihýsum, tjald-vögnum og öðrum sambærilegum búnaði, utan skipulagðra tjaldsvæða.

Heimildir DV herma að leigjendur í leyfislausu íbúðunum séu útlendingar sem eigi erfitt með að tjá sig á íslensku eða ensku. Samkvæmt heimildum DV aftengdi eigandinn salerni og tók sturtuna í bílskúrsíbúðinni í burtu og setti upp færanlegt ferðasalerni í staðinn. Sömuleiðis er hann sagður hafa aftengt salerni í þeim hluta íbúðarinnar í húsinu sem var áður geymsla, en breytt hafði verið í sér íbúð, og sett þar einnig ferðasalerni. 

Staðan óbreytt

Samkvæmt heimildum DV er nú á mánudegi staðan óbreytt og því enn engin klósett eða sturta í leyfislausu íbúðunum.

Málið mun hafa verið tilkynnt til sveitarfélagsins. Eins og áður hefur komið fram hefur byggingarfulltrúi Voga lagt fyrir eigandann að breyta íbúðinni aftur í eina íbúð og breyta bílskúrnum aftur í bílskúr en klósettum og sturtum hafði verið komið fyrir í bílskúrsíbúðinni og geymslunni, inni í íbúðinni í húsinu, sem breytt hafði verið í sérstaka íbúð. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er haft eftir eigandanum að sveitarfélagið hafi krafist þess að klósett og sturtur yrðu fjarlægð.

Heimildarmenn DV taka undir það með byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að eigandinn hafi breytt skipulagi íbúðarinnar með því að breyta geymslunni í íbúð.

Eins og fram kemur í áðurnefndum úrskurði má rekja upphaf málsins allt til ársins 2019 en eigandinn keypti íbúðina 2018. Samkvæmt heimildum DV réðst eigandinn í framkvæmdirnar sem eru sagðar hafa verið hávaðasamar, með t.d. múrbroti, og umfangsmiklar gagnstætt því sem hann hefur haldið fram. Samkvæmt sömu heimildum hefur eigandinn deilt við aðra íbúðareigendur í húsinu vegna framkvæmdanna og almenns viðhalds á húsinu allt frá því að hann keypti íbúðina. Fullyrða heimildarmenn DV að eigandinn hafi staðið í vegi fyrir að nauðsynlegt viðhald fari fram á húsinu meðal annars vegna þess að aðrir eigendur hafi ekki viljað samþykkja framkvæmdir hans þrátt fyrir mikinn þrýsting af hans hálfu.

Aftengdi klósett og sturtu

DV ræddi við eigandann sem staðfesti að fyrir helgi hefði hann aftengt klósett og sturtur í bílskúrsíbúðinni og auka íbúðinni í húsinu. Hann staðfesti einnig að hafa vísað leigjandanum í bílskúrnum út í húsbíl. Aðspurður hvort það væri ekki ómannúðlegt að svipta fólk aðgangi að klósetti og sturtu svaraði eigandinn:

„Þú verður eiginlega að spyrja sveitarfélagið að því.“

Eigandanum kom ekki á óvart að tilkynnt hefði verið um þessa aðgerð hans til sveitarfélagsins. Hann segir að hann hafi nú fært húsnæðið í fyrra horf, eins og sveitarfélagið hefur lagt fyrir hann að gera. Af samtali fréttamanns DV við eigandann mátti ráða að hann hefði ekki í hyggju að tengja klósettin og sturtuna aftur. Aðspurður hvort það hefði ekki verið eðlilegra að segja íbúunum upp leigunni og aftengja klósettin og sturturnar þegar þau væru flutt út sagði eigandinn að hann héldi að íbúarnir hafi getað fengið að nota klósett í annarri íbúð í húsinu, sem hann á ekki.

Eigandinn vísar því einnig á bug að hann hafi staðið í vegi fyrir nauðsynlegu viðhaldi á húsinu. Hann fullyrðir einnig enn að það sé ekki rétt sem komi fram hjá byggingarfulltrúa og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að hann hafi breytt innra skipulagi hússins.

Hann segir að bílskúrinn sé í leigu sem vinnustofa og forstofuherbergið í sjálfri íbúðinni í húsinu, sem kallað er geymsla í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, séu í útleigu sömuleiðis og hann sjái ekki ástæðu til að segja leigjendunum upp leigunni þrátt fyrir að hafa aftengt klósett og sturtur.

Til skoðunar

DV hafði samband við Davíð Viðarsson byggingarfulltrúa sveitarfélagsins Voga. Hann segist hafa fengið tölvupóst um að eigandinn hafi aftengt klósett og sturtur í leyfislausu íbúðunum en hafi ekki haft tök enn sem komið er á því að skoða málið að einhverju ráði. Davíð segir það þó klárt að þetta sé mál sem sveitarfélagið verði að vinna úr.

Aðspurður hvort að hann viti til þess að sveitarfélagið geti gripið til einhverra aðgerða til að tryggja aðgang leigjendanna að klósetti og sturtu segir Davíð að helsta lausnin á þessari stundu sem honum komi til hugar sé að leigjendurnir fái að nota klósett í þeim íbúðum hússins sem öll leyfi eru fyrir.

Ljóst er að leigjendurnir hafa búið í íbúðum sem byggingarfulltrúinn hefur úrskurðað að ekki sé leyfi fyrir og sú niðurstaða hefur verið staðfest af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Aðspurður hvort að sveitarfélagið geti í ljósi þessarar niðurstöðu séð til þess að leigjendurnir flytji út úr íbúðunum sem ekki var leyfi fyrir svarar Davíð:

„Það er eitthvað sem við þyrftum að fara í.“

Hann áréttar þó að leigjendunum yrði gefinn tími til að finna sér annað húsnæði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigurbjörg og Árni bera hvort annað þungum sökum: „Uppákoma þín hefur meitt æru mína og föður míns heitins“

Sigurbjörg og Árni bera hvort annað þungum sökum: „Uppákoma þín hefur meitt æru mína og föður míns heitins“
Fréttir
Í gær

Gangandi vegfarandi lést eftir umferðarlys

Gangandi vegfarandi lést eftir umferðarlys
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verkfall á hjúkrunarheimilum framundan ef samningar nást ekki á mánudag

Verkfall á hjúkrunarheimilum framundan ef samningar nást ekki á mánudag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri Árborgar um skattahækkanir bæjarins – „Eðlilega er enginn ánægður með slíkan aukareikning“

Bæjarstjóri Árborgar um skattahækkanir bæjarins – „Eðlilega er enginn ánægður með slíkan aukareikning“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fiskistofa gekk of langt með drónum

Fiskistofa gekk of langt með drónum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ungur ökumaður á Vesturlandi tekinn á 188 kílómetra hraða í gærkvöldi

Ungur ökumaður á Vesturlandi tekinn á 188 kílómetra hraða í gærkvöldi