Lögreglan á Vestfjörðum óskar eftir því að ná tali af ökumanni sem bakkaði á barn á Ísafirði á föstudag. Einnig óskar lögreglan eftir vitnum og myndbandsupptökum af atvikinu.
Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar var bifreið bakkað á barn á föstudag, 27. september, klukkan 16:45 við Hafnarstræti 5.
„Það vildi svo óheppilega til að bifreiðin rakst á barn sem var að ganga yfir gangbraut sem var fyrir aftan bifreiðina,“ segir í tilkynningunni. „Barnið hlaut ekki alvarlega áverka. Lögreglan á Vestfjörðum óskar eftir vitnum af atvikinu. Einnig óskar lögreglan eftir að ná tali af ökumanni bifreiðarinnar sem vitni eru sammála um að hafi verið silfurlituð fólksbifreið.“
Einnig óskar lögreglan eftir því að fá myndbandsupptökur frá einstaklingum sem kunna að búa yfir þeim. Ábendingar berist í síma 444-0400 eða á tölvupóstfangið vestfirdir@logreglan.is.