Menntaþing 2024 fer nú fram á Hilton Reykjavík Nordica og í streymi. Staða menntakerfisins er til umræðu, yfirstandandi breytingar og næstu skref í menntaumbótum ásamt kynningu á 2. aðgerðaráætlun í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, viðurkennir að staðan í kerfinu sé ekki sú besta þó að margt gott sé að eiga sér stað líka. Hann rakti hvernig grunnhæfni íslenskra grunnskólabarna hefur farið versnandi undanfarin ár samkvæmt PISA-könnunum. Eins hafi lesfimipróf sem lögð voru fyrir nemendur í maí á þessu ári sýnt að lesfimi er langt undir væntingum, en til dæmis töldust aðeins 65 prósent barna í 10. bekk ná svonefndu fyrsta viðmiða í lesfimi, en markmiðið er að hlutfallið sé nær 90 prósentum.
Áskoranir eru margar, einkum skortur á kennurum. Staðan sé í dag sú að nýútskrifaðir kennarar eru jafnvel ekki að skila sér inn til skólanna og kennarar eru farnir að hverfa yfir á annan starfsvettvang. Á sama tíma hafi stöðugildum stjórnenda í skólum fjölgað umtalsvert umfram nemendafjölgun, en stjórnendastöðum hafi fjölgað um 95 prósent 2016-2023 þegar nemendum fjölgaði á sama tíma um 6,7 prósent.
Rannsókn á gæðum kennslu á Norðurlöndum hafi sýnt fram á veikleika í íslensku kennsluumhverfi. Tímastjórnun i kennslustundum virtist lakari hér heldur en á hinum Norðurlöndunum, vinna með texta fátíð í íslenskum skólum og minna um tengingu við fyrra nám, sýnikennslu og beitingu námsaðferða heldur en hjá nágrannaþjóðunum.
Hvað leikskólastigið varðar þá hefur hlutfall fagmenntaðra starfsmanna minnkað á sama tíma og fjölgað hefur í hópi starfsmanna sem eru svokallaðir 1. kynslóðar innflytjendur. Hæst var hlutfall slíkra starfsmanna 43 prósent árið 2016 en árið 2022 var hæsta hlutfallið 88 prósent. Þar með séu leikskólar í þeirri stöðu að allt að 90 prósent starfsmanna séu með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.
Margir nemendur kljást við andlegar áskoranir, þá sérstaklega stúlkur, og börnum innflytjenda líður almennt verr í skólum. Fleiri börnum gengur verr í námi og færri gengur mjög vel. Fleiri börn þurfa nú en áður sérstakan stuðning í skóla. Ljóst er að félagslegar og efnahagslegar aðstæður nemenda hafi í auknum mæli neikvæð áhrif á nám barna.
Björn Brynjólfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, mætti í pallborðsumræður þar sem hann tók fram að staðan í menntakerfinu væri á neyðarstigi.
„Hún er á þeim stað sem við köllum neyðarástand og ég held að við þurfum að horfast í augu við það. Ásmundur sagði að þróunin væri sambærileg á öðrum Norðurlöndum, hún er það ekki, það er miklu verri staða hér. Lesskilningur og stærðfræðifærni nemenda á Íslandi er með því versta sem gengur og gerist. Við erum með eitt dýrasta kerfi í heimi í grunnskólanum með næst lakasta árangur í Evrópu og þetta er að okkar mati óásættanlegt.“
Björn segir að það séu mistök að leggja ekki áherslu á samræmt námsmat á Íslandi. Það þurfi að vera til staðar tól til að meta stöðu nemenda og einstakra skóla og slíkt þurfi að gera með reglubundnum hætti svo grípa megi inn með tímanlegum hætti. Viðskiptaráð hafi gert athugasemdir við fyrirhugaða námsferla sem til stendur að koma á í skólum þar sem slíkt átti að vera valkvætt fyrir skólanna og ekki lagt fyrir með samræmdum hætti. Nýtt frumvarp hafi að einhverju leyti tekið mark á þeirri gagnrýni og nú verði tekin staðan samræmt á nemendum á þremur stigum í grunnskólagöngunni. Þessum upplýsingum þurfi að deila og miðla opinberlega. Enn séu þó annmarkar á áformum um námsferla en Björn telur að taka þurfi aftur upp samræmda mælingu á getu nemenda við lok grunnskólagöngunnar þar sem fyrir liggi að skólaeinkunn mismuni nemendum þar sem þær séu ýmist gefnar of háar eða lágar miðað við raunfærni. Eins sé viðurkennt að einkunnarverðbólga sé að eiga sér stað eftir að skólar fóru að gefa einkunnir í bókstöfum fremur en tölum.
Dagný Hróbjartsdóttir, stjórnarkona í Heimili og skóla, segir að foreldrar þurfi að taka ábyrgð á stöðunni líka. Foreldrar þurfa að setja börnum mörk og standa við þau. Uppeldið gerist ekki bara í skólum heldur heima líka og alltof margir eigi til að bera litla virðingu fyrir skólastarfi heldur líta heldur á skóla sem daggæslu. Mögulega þurfi foreldrar meiri stuðning og leiðbeiningar þar sem uppeldisaðferðir eru okkur ekki í blóð bornar heldur lærðar, en þó er það svo að börnum fylgi ekki leiðbeiningar.
Valdimar Víðisson, skólastjóri og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sagði mikilvægt að horfa á innri þætti skólakerfisins og þann vanda sem þar liggur. Það sé of mikið álag á kennurum og börnum líður alltof mörgum illa. Foreldrar þurfi að muna að lögum samkvæmt beri þeir ábyrgð á hegðun barna sinna. Þetta viti greinilega ekki allir. Nýlega hafi hann heyrt um foreldra sem strunsuðu í skóla barna sinna og spurðu hvað stæði til í að gera í því að barn þeirra væri að slást og lemja. Þar töldu foreldrarnir ábyrgðina liggja alfarið hjá skólanum fremur en hjá sér.