fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
Fréttir

Reykjavíkurflugvöllur – Hávaði aldrei mældur og kortlagning á mögulegu flugslysi ekki til staðar

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 26. september 2024 10:05

Mynd: Facebook/Hljóðmörk

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sökum plássleysis á Keflavíkurflugvelli og annarra þjónustukrafna lenda allar einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli, umferð um völlinn jókst gríðarlega í kjölfar eldgosa á Reykjanesi, hávaði á vellinum er ekki mældur og ekki er eftirlit með gangsetningu einkaþotna nálægt íbúabyggð né hversu lengi þær standa í gangi. Isavia telur það vera hlutverk stjórnvalda að móta stefnu um magn/tegund flugumferðar um Reykjavíkurflugvöll. 

Þetta er á meðal þess sem fram kom á fundi fulltrúa frá Hljóðmörk með fulltrúum frá Isavia innanlandsflugvalla á mánudag. 

Vilja óþarfa flug frá Reykjavíkurflugvelli

Hljóðmörk, íbúasamtök gegn óþarfa flugumferð um Reykjavíkurflugvöll, voru stofnuð í byrjun september og eru það einkum íbúar í miðborg Reykjavíkur, Vesturbæ, Hlíðum, Skerjafirði og Kársnesi í Kópavogi sem standa að þeim. En einnig fólk annars staðar af á höfuðborgarsvæðinu, svo sem Fossvogi, Garðabæ og jafnvel Hafnarfirði.

Markmiðið er ekki að banna flug frá Reykjavíkurflugvelli heldur að óþarfa flug hverfi frá vellinum. Þetta er til dæmis flug einkaþota og annarra flugvéla, útsýnisflug, kennsluflug og þyrluflug. Þetta á ekki við um sjúkraflug, björgunarflug eða reglubundið innanlandsflug.

Sjá einnig: Stofna samtök gegn óþarfa flugi á Reykjavíkurflugvelli – „Fólk er búið að fá nóg“

Fulltrúar samtakanna hafa verið virkir frá stofnun þess og má sjá upplýsingar um alla fundi og fleira á Facebook-síðu samtakanna.

Á fundinum á mánudag kom fram að Isavia Innanlandsflugvellir vill samráð  við Hljóðmörk en er bundið af starfsleyfi flugvallarins frá Samgöngustofu.Starfsemi Reykjavíkurflugvallar er skv. þjónustusamningi við Innviðaráðuneytið.   

Telja starfsemi þyrluflugs betur komið fjarri íbúabyggð

„Það er mat Isavia Innanlandsflugvalla að starfsemi þyrlufyrirtækja sé e.t.v. betur fyrir komið, til framtíðar, í jaðri höfuðborgarsvæðisins  en staðarvalið þarf að ákveða í samráði við Samtök sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu og aðra hagsmunaaðila. Taka þarf tillit varðandi staðsetninguna til umferðar í lofti. Að mati Isavia Innanlandsflugvalla ættu sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins að vera í þessu samtali og að leiða þessa vinnu. Isavia hefur ekki verið boðið að borðinu með vinnuhópi á vegum Reykjavíkurborgar varðandi nýja staðsetningu fyrir þyrlurnar.“

Eldgos á Reykjanesi uku álagið

Á fundinum kom fram að umferð um Reykjavíkurflugvöll jókst mikið í tengslum við eldgos á Reykjanesi og í júlí/ágúst 2023 olli það gríðarlegu álagi bæði í flugturninum – á flugumferðarstjóra, á flugvallaþjónustuna og íbúa höfuðborgarsvæðisins sem birtist í stórauknum fjölda kvartana. Í kjölfarið var unnið að því að hanna og innleiða nýja sjónflugsferla til og frá eldgosasvæðinu við Grindavík fyrir bæði fastvængjur og þyrlur, sem hafa tekið gildi. „Tilgangur með þeim var að færa umferðina til Reykjaness yfir sjó og fjær byggð. Tekið var fram að eftir sem áður geta flugmenn fengið heimild til að fljúga aðrar leiðir. Upplifun íbúa er að þyrlur fljúgi enn yfir byggð.“

Telja sig ekki geta bannað þyrlum að lenda

Það er mat Isavia Innanlandsflugvalla að vegna plássleysis í Keflavík og annarra þjónustukrafna lendi einkaþoturnar á Reykjavíkurflugvelli. Fá þannig allir sem óska eftir því að lenda á vellinum og telur Isavia sig ekki hafa heimild til að neita einkaþotum um að lenda á Reykjavíkurflugvelli.

Aukin flugumferð við aukið þéttbýli eykur líkur á að flugslys valdi miklum skaða

Eins og þekkt er hefur þéttbýli aukist mjög við Reykjavíkur með nýjum byggingum við Valsvöll. Á fundinum kom fram að aukið þéttbýli í kringum völlinn ásamt aukinni flugumferð eykur líkur á að flugslys myndi valda miklum skaða. Kortlagning á mögulegu flugslysi með tilliti til nærliggjandi íbúðahverfa hefur ekki verið framkvæmd og engin krafa um slíkt sett fram í þeim reglugerðum og lögum sem gilda um flugvelli á Íslandi. Flugslysaæfing er þó gerð reglulega með öllum tilheyrandi viðbragðsaðilum. Ekki er unnið sérstaklega með öryggismál gagnvart íbúðahverfum og ekki heldur þegar litið er til þess að Alþingi, Stjórnarráðið og Ráðhúsið eru á einni flugleiðinni.  

Ekkert eftirlit með einkaþotum nálægt íbúabyggð

Flughlöð flokkast sem óstjórnuð á Reykjavíkurflugvelli, það er eftir að vélar hafa lent taka  flugrekstraraðilar/flugþjónustur alfarið við og sjá um hvar flugvélar leggja, hversu nálægt íbúabyggð og svo framvegis. 

Ekki er eftirlit með gangsetningu einkaþotna nálægt íbúabyggð né hversu lengi þær standa í gangi. En borið hefur á því að vélum er lagt hreinlega við íbúðarhús og reglulega sendir flugvallarstjóri áminningar til þyrlufyrirtækja um að setja ekki í gang nálægt byggingum  á Hlíðarenda, innan ákveðins ramma er það bókstaflega bannað. Reglan er að einkaþotur séu ekki í gangi lengur en 20 mínútur, Isavia telur sig hins vegar ekki hafa neina sektarheimild og því eru engin viðurlög af þeirra hálfu þegar reglur eru brotnar. Upplýsingaskilti eru í framleiðslu sem árétta skilaboð til flugmanna. Ekki er eftirlit með eða takmörk á því hvort einkaþotur dæli eldsneytismengun yfir íbúabyggð

Telja sig ekki geta bannað flug yfir íbúabyggð á Kársnesi

Að sama skapi telur Isavia sig ekki geta bannað flugmönnum að fljúga yfir íbúabyggð á Kársnesi þrátt fyrir sjónflugsleið milli Reykjavíkurflugvallar og eldgosasvæðis við Grindavík hafi verið breytt með það að markmiði að minnka hávaða í nágrenni flugvallarins með því að beina þyrlunum út fyrir Kársnes á leið frá Reykjavíkurflugvelli og hækka flughæðir til að auka fjarlægð frá byggðinni. 

Hávaði ekki mældur og þolmarkagreining í vinnslu

Hávaði á flugvellinum er ekki mældur og segist Isavia myndu vilja mælingar, en ekki hafa fengið úthlutað fjármagn á samgönguáætlun til að kaupa hávaðamæla.

Þolmarkagreining á flugvellinum er í vinnslu hjá Isavia og gert ráð fyrir að hún muni liggja fyrir 30. janúar 2025. Niðurstöður hennar aðstoða við að sjá hversu margar þyrlur rúmast á flugvellinum með tilliti til öryggissvæða, ásamt annarri flugumferð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Móðir drengsins sem lést íhugar að fara í skaðabótamál

Móðir drengsins sem lést íhugar að fara í skaðabótamál
Fréttir
Í gær

Fólk í áfalli eftir fréttaskýringaþátt Kveiks í gærkvöldi

Fólk í áfalli eftir fréttaskýringaþátt Kveiks í gærkvöldi
Fréttir
Í gær

Hinn látni í slysinu á Fossá lögreglumaður frá Hong Kong – Eiginkona hans alvarlega slösuð

Hinn látni í slysinu á Fossá lögreglumaður frá Hong Kong – Eiginkona hans alvarlega slösuð