fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
Fréttir

Neitar því að hafa breytt íbúðinni og segist þolandi eineltis

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 26. september 2024 11:30

Umrædd íbúð er í Vogum á Vatnsleysuströnd. Mynd: Eysteinn Guðni Guðnason - CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=137664541

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðað í kærumáli eiganda bílskúrs og íbúðar í fjöleignarhúsi í Vogum á Vantnsleysuströnd gegn sveitarfélaginu. Hafði sveitarfélagið lagt dagsektir á manninn á þeim grundvelli að hann hefði án þess að afla tilskilinna leyfa breytt innra skipulagi íbúðarinnar með framkvæmdum innanhúss. Eigandinn vísaði því hins vegar alfarið á bug að hafa gert það og vildi meina að framkvæmdirnar hefðu verið það umfangslitlar að ekki þyrfti að afla leyfa vegna þeirra. Fullyrti eigandinn að sveitarfélagið hefði sýnt honum mikla óbilgirni og í raun lagt hann í einelti.

Dagsektirnar voru lagðar á í júlí síðastliðnum og nema 10.000 krónum fyrir hvern dag síðan þá en áttu þær að vera lagðar á þar til eigandinn myndi breyta húsnæðinu aftur til fyrra horfs. Í bréfi byggingarfulltrúa Voga til mannsins er vísað í fyrri bréf sem ná allt aftur til ársins 2019 og því ljóst að málið á sér fimm ára langa sögu.

Í bréfinu frá því í júlí, þar sem tilkynnt var um dagsektirnar, kom meðal annars fram að fyrir lægi að geymslu í húsnæðinu hafi verið breytt í baðherbergi auk þess sem dyraopi á milli eldhúss og þvottahúss hafi verið lokað. Hafi það ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar. Íbúðinni hafi í raun verið skipt í tvennt. Þá liggi fyrir að bílgeymslu hafi verið breytt í íverurými sem sé heldur ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Hafi ekki þurft neitt leyfi og engar teikningar til

Málið horfði talsvert öðruvísi við eigandanum. Í sinni kæru fullyrti hann að ekki hafi þurfi sérstakt byggingarleyfi fyrir minni­háttar framkvæmdum eins og þessum. Sagði hann skipulag íbúðarinnar gamalt og ekki séu neinar teikningar til staðar að styðjast við. Hvorki þurfi byggingarleyfi til þess að opna eða loka dyrum né til þess að setja bedda í bílskúr. Sveitarfélagið Vogar hvetji húseigendur til að nýta bílskúra sem íbúðir. Húsnæðið hafi verið leigt út í þeim tilgangi að fjármagna kaupin á því. Nái kröfur sveitarfélagsins fram að ganga lendi hann í fjárhagsvandræðum.

Eigandinn segist hafa sótt um leyfi frá sveitarfélaginu til að skrá þrjár íbúðareiningar. Sú umsókn hafi verið dregin til baka þar sem viðhorf sveitarfélagsins hafi verið neikvætt. Sveitarfélagið vilji engar teikningar og fari fram á að húsnæðinu verði komið í upprunalegt ástand, en húsið hafi verið reist árið 1953. Engar teikningar séu til af innra skipulagi íbúðarinnar og gæti því núverandi útfærsla verið hin upphaflega. Fullyrti eigandinn jafnframt að íbúðin hafi verið keypt í núverandi ástandi og hafi hann ekki breytt innra skipulagi hennar.

Víst verulegar framkvæmdir og breytingar

Vogar svöruðu kæru eigandans með því að vísa til þess að breytingar sem hann hafi gert á íbúðinni séu það miklar að búið sé að búa til tvær sjálfstæðar íbúðir auk þess að breyta bílskúrnum í sjálfstæða íbúð. Slíkar breytingar á notkun og fjölgun íbúða séu í eðli sínu verulegar og geti ekki talist minniháttar. Framkvæmdirnar hafi það mikil áhrif á nágrennið að þær hafi verið leyfisskyldar.

Sveitarfélagið andmælti því einnig að húsnæðið hafi verið í því ástandi sem það sé nú þegar eigandinn keypti það. Framkvæmdir hafi m.a. staðið yfir við breytingar á fyrstu hæð hússins þegar mál þetta hófst 2019. Enn fremur sé skýrt af þeim aðal­uppdráttum hússins sem til séu að ekki séu samþykktar tvær íbúðir á fyrstu hæð og bílskúrinn hafi ekki verið samþykktur sem íbúðarrými. Þá sé eignaskiptasamningur skýr um þetta og sameigendur hafi hafnað slíkri breytingu.

Einelti

Eigandinn svaraði sjónarmiðum sveitarfélagsins með enn ítarlegri rökum.

Hann sagði Voga hafa brotið stjórnsýslulög í málinu þar sem ekki hafi farið fram hlutlaus rannsókn, hann hafi ekki fengið að nýta andmælarétt og ekki hafi verið gætt jafnræðis eða meðalhófs. Ekki hafi verið litið til lagaskilareglna, en húsið hafi verið byggt um miðja síðustu öld. Húsnæðið sé í samræmi við aðaluppdræti frá 1953 og reglur sem þá giltu. Engin gögn séu til um upphaflegt skipulag innra rýmis hússins frá þeim tíma.

Stóð eigandinn fastur á því að um hafi verið að ræða minniháttar framkvæmdir. Um sé að ræða færslu á vaski, lokun dyra tímabundið, uppsetningu sturtu og salernis­tilfærslu, ásamt færslu eldhúss og elhúsinnréttingar. Eigandinn spurði hvort honum sé ekki heimilt að búa í bílskúr eins og raunin sé með íbúa í sömu götu eða hvort hann sæti einelti af hálfu sveitarfélagsins og hafi takmarkaðri réttindi en aðrir íbúar.

Hann vildi einnig meina að byggingarfulltrúinn hefði ekki sinnt ábendingum hans um að ástandi annarar íbúðar í húsinu væri verulega ábótavant og að eigandi þeirrar íbúðar hefði reist skúr í óleyfi á lóð hússins. Taldi maðurinn þessa mismunandi meðferð benda til tengsla eiganda þeirrar íbúðar við starfsmenn sveitarfélagsins.

Hafi ráðist í framkvæmdirnar

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að gögn málsins sýni fram að árið 2019 hafi komið í ljós við vettvangsskoðun byggingarfulltrúa að búið væri að stúka af vestur­hluta íbúðarinnar og koma þar fyrir eldhúsaðstöðu og salerni í þeim tilgangi að skipta íbúðinni upp í tvo aðskilda hluta til útleigu. Hafi eigandinn tjáð skoðunarmönnum að bílskúrinn væri þegar í útleigu og hafi við vettvangsskoðun sést að búið var að fjarlægja innkeyrsludyr og setja þess í stað vegg með glugga.

Sagði nefndin því ljóst að eigandinn hefði sannarlega breytt íbúðinni á þann hátt að skipta henni í tvær íbúðir auk þess að breyta bílskúrnum í íbúð. Samkvæmt lögum þurfi leyfi byggingarfulltrúa fyrir slíkum framkvæmdum. Byggingarfulltrúi Voga hafi því verið í fullum rétti að leggja á dagsektir. Kröfu eigandans um að ákvörðun byggingarfulltrúans yrði ógilt var því hafnað.

Hins vegar felldi nefndin niður þær dagsektir sem lagðar höfðu verið á eigandann frá því í júlí og fram til dagsins í gær þegar úrskurðurinn var kveðinn upp, með vísan til stjórnsýslulaga og laga um nefndina sjálfa.

Dagsektirnar byrja því væntanlega að leggjast á að nýju þar til húsnæðinu verður breytt í fyrra horf.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Móðir drengsins sem lést íhugar að fara í skaðabótamál

Móðir drengsins sem lést íhugar að fara í skaðabótamál
Fréttir
Í gær

Fólk í áfalli eftir fréttaskýringaþátt Kveiks í gærkvöldi

Fólk í áfalli eftir fréttaskýringaþátt Kveiks í gærkvöldi
Fréttir
Í gær

Hinn látni í slysinu á Fossá lögreglumaður frá Hong Kong – Eiginkona hans alvarlega slösuð

Hinn látni í slysinu á Fossá lögreglumaður frá Hong Kong – Eiginkona hans alvarlega slösuð