Blaðið greindi frá því í gær að Dagur hefði farið í 26 ferðir og dvalið erlendis í tæpa þrjá mánuði það sem af er kjörtímabilinu.
Hildur Björnsdóttir, oddviti, Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir við Morgunblaðið í dag að auðvitað sé eðlilegt að eiga í heilbrigðu alþjóðasamstarfi. „En það vekur spurningar þegar fyrrverandi borgarstjóri og nú formaður borgarráðs ferðast meira til útlanda en formaður utanríkismálanefndar Alþingis gerir,“ segir hún.
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, tekur í svipaðan streng í samtali við blaðið.
„Mig rak í rogastans þegar ég sá þessa frétt í morgun,“ segir hún en tekur þó fram að hún hafi skilning á því að fólk skipuleggi ferðir. Tilgangurinn þurfi þó að vera skýr og þjóna hagsmunum borgarbúa.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, segist hafa skilning á því að sumar ferðir séu gagnlegar en þetta séu mjög margar ferðir.
„Ég set líka spurningu við dagpeningagreiðsluna og hvað þetta kristallar muninn á þeim efnameiri og efnaminni. Þeir efnaminni hafa ekki tök á því að fara til útlanda,“ segir hún.