Eftir að byrjað var að rukka í bílastæði við Hallgrímskirkju hefur það aukist að ferðamenn leggi bílum í nærliggjandi götum. Jafn vel sofa þar í bílum sínum. Íbúar eru orðnir þreyttir á þrengslunum og raskinu.
Umræða um þetta hefur skapast á samfélagsmiðlum. Segist einn íbúi í nágrenni Hallgrímskirkju nú aldrei lengur finna stæði nálægt heimili sínu.
„Ferðamenn velja það í auknum mæli að leggja í þröngu götunum okkar til þess að spara klink, bílaleigubílar og jafn vel fólk sem sefur í litlum camper bílum. Þetta gerir líf okkar sem búum hérna erfitt, svo sem við að versla, færa húsgögn og fleira. Ef þú hefur efni á að koma í ferðalag hingað þá hlýtur þú að hafa efni á því að leggja bílaleigubílnum þínum í þau bílastæði sem eru ætluð fyrir ferðamenn,“ segir einn maður sem er orðinn þreyttur á þrengslunum.
Eins og sjá má á meðfylgjandi korti þá er mjög misdýrt að leggja í miðbænum. Á rauðmerktum svæðum kostar klukkutíminn 600 krónur. En 220 krónur á bláum, grænum og appelsínugulum svæðum. Munurinn á þeim er tími gjaldskyldu. Eins og sést á kortinu er víða engin gjaldskylda í íbúðargötum og þar eru ferðamenn farnir að leggja sínum bílum.
Samkvæmt heimildum DV leggja erlendir ferðamenn einnig oft camper-bílum sínum neðan við Hallgrímskirkju, á milli Brjóstasmiðstöðvar Landspítala og gamla Vörðuskólans. Hafa þeir sést gera þarfir sínar utandyra á því svæði og fleygja sorpi á víð og dreif.
Í umræðum segir nefnir ein kona að þrengslin valdi nemendum Tækniskólans miklum vandræðum.
„Vegna allra bílaleigubílanna sem eru þarna á daginn er næstum ómögulegt fyrir nemendur að keyra í skólann, og því miður höfum við ekki góðar almenningssamgöngur,“ segir hún. Ferðamenn leggi í stæði sem eru ætluð nemendum. „Ég þekki tvær manneskjur sem eru í skólanum og geta ekki keyrt af því að það er aldrei hægt að leggja. Þess vegna þurfa foreldrarnir að skutla þeim á hverjum degi.“
Fjölmargir erlendir ferðamenn taka þátt í umræðunni líka. Nefnt er meðal annars að gjaldskyldan í Reykjavík sé mun lægri en víða í bandarískum borgum.
„Ég held að, að minnsta kosti í Bandaríkjunum, sé séum við forrituð til þess að leita að ókeypis bílastæðum af því að það er svo dýrt og íþyngjandi að leggja í stórri borg,“ segir einn.