Mikla athygli vakti og óhug í maí síðastliðnum þegar hjón fundust látin í heimahúsi í Bolungarvík. Ekki var talið útilokað í fyrstu að eitthvað saknæmt hefði átt sér stað en lögreglan á Vestfjörðum var rétt í þessu að senda frá sér tilkynningu um að krufning hafi leitt í ljós að andlát hvorugs hjónanna hafi borið að með saknæmum hætti.
Íbúum á Bolungarvík var verulega brugðið þegar málið kom upp í vor eins og fram kom þá þegar DV ræddi við Jón Pál Hreinsson bæjarstjóra.
Harmleikurinn í Bolungarvík: Bæjarstjórinn býr skammt frá húsinu – „Okkur er mjög brugðið“
Einhver tími leið frá því að hjónin létust og þar til þau fundust eins og DV greindi frá þann 28. maí síðastliðinn. Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum hefur henni nú borist niðurstöðuskýrsla réttarmeinafræðings sem annaðist réttarkrufningu hinna látnu. Niðurstaða rannsóknar málsins sé sú að andlát hjónanna sé ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti heldur hafi orsökin verið langvarandi veikindi þeirra beggja, sem ekki er gerð frekari grein fyrir í tilkynningunni. Í tilkynningunni segir að annað hjónanna hafi sést útivið nokkrum dögum áður en þau fundust látin á heimili sínu, en ekki hafi verið hægt að ákvarða nákvæman dánartíma. Rannsókn málsins verði því hætt og það tilkynnt með venjubundnum hætti.