Íbúar á Arnarnesi í Garðabæ hafa fengið sig fullsadda af hversu lengi húsbygging World Class hjóna hefur tekið. Í átta ár hefur byggingakrani staðið uppi og stanslaus umgangur er af verktökum. Garðabær hefur gert athugasemdir við tafir á byggingarhraðanum.
Greint var frá því árið 2017 að hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir hefðu keypt lóðina að Haukanesi 22 af fjárfestinum Hjörleifi Jakobssyni sem hafði látið teikna þar hús og steypa grunninn. Húsið átti að vera tæplega 600 fermetrar með rúmlega 60 fermetra bílskúr. Á þeim tíma stóð byggingakrani uppi við húsið. Hann stendur þar enn.
Í dag er húsið komið upp, er langt komið að utan en enn er verið að vinna inni í því. Meðal annars á eftir að setja hurð og bílskúrshurð á það. Þá er lóðin enn þá ófrágengin.
Nágrannar sem DV ræddi við eru orðnir þreyttir á þessu. Það er að framkvæmdir geti tekið svona langan tíma í grónu hverfi. Kraninn sé næstum orðinn eins og hluti af bæjarlandinu, en hann hafi ekki verið notaður mánuðum saman.
Í skilmálum deiliskipulags bæjarins segir að séu hús rifin og byggð skulu sett tímamörk. Leggja skuli fram tímaáætlun verksins til byggingarfulltrúa.
„Bygging húss skal hafin eigi síðar en einu ári eftir að leyfi er veitt til framkvæmda og skal að fullu lokð eigi síðar en 1.5 ári eftir að byggingarframkvæmdir hefjast,“ segir í skilmálunum. „Þar sem um byggingu húss er að ræða í grónu hverfi er krafa um að lóð skal vera að fullu frágengin eigi síðar en 3 árum eftir að byggingaframkvæmdum er lokið. Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að láta ljúka þessum framkvæmdum á kostnað lóðarhafa, verði ekki staðið við skilmála þessa.“
Kvartanir hafa verið sendar til bæjarins og nágrannar óttast fordæmið sem verið er að setja. Fleiri lóðir séu auðar í hverfinu og ef skilmálum sé ekki fylgt í einu tilfelli gæti farið svo í fleirum.
DV sendi spurningar á Almar Guðmundsson bæjarstjóra vegna málsins. Í svörum bæjarins segir að stöðuúttekt hafi farið fram fyrir skemmstu. Komið hafi fram að verkið væri á lokametrunum.
„Á vormánuðum var þessi eign, ásamt eignum sem eins er ástatt um í bænum, skoðuð m.a. m.t.t. byggingarhraða, þar sem verið er að endurskoða verkferla hér hjá okkur vegna framkvæmda hraða,“ segir í svarinu. „Skilmálar Garðabæjar eru skýrir og gerði Garðabær síðast athugasemd við tafirnar í vor. Garðabær hefur hert verklag tengt töfum í framkvæmdum og er nú unnið samkvæmt nýju verklagi.“
DV tók eftir að málið hafði ekki verið rætt á fundum skipulagsráðs eða bæjarráðs samkvæmt fundargerðum á tímabilinu. Samkvæmt svörum bæjarins eru ekki haldnar sérstakar fundargerðir um byggingarhraða og mál sem þetta rata ekki inn í fundargerðir skipulagsráðs.
„Mál sem þetta eru til afgreiðslu innan umhverfissviðs og athygli eiganda hefur verið vakin á óánægju með hinn langa byggingartíma,“ segir í svarinu.