Maðurinn herjaði meðal annars á verslanir eins og Hagkaup, Elko og Lyfju þar sem hann stal dýrum vörum eins og ilmvötnum og raftækjum. Þá stal hann einnig matvöru; til dæmis einni agúrku, tómötum, lasagna frá 1944, ostapylsum og kjúklinganúðlum.
Fyrsta brot mannsins, samkvæmt ákæru, átti sér stað 15. mars 2023 þegar hann stal peysu, buxum og bol í Herragarðinum fyrir 86.000 krónur. Í tvígang í maí það ár stal hann svo ýmsum vörum úr Hagkaup og var verðmæti þeirra hátt í 400 þúsund krónur. Munaði þar mestu um nokkra rakspíra og snyrtivörur.
Hann hélt svo áfram að stela úr Hagkaupum í byrjun júní 2023 þar sem hann stal meðal annars níu ilmvötnum. Í Elko stal hann svo Nintendo Switch-leikjatölvu og JBL-heyrnartólum að söluverðmæti samtal 118.975 krónur og í Lyfju stal hann sjö ilmvötnum. Hann mætti svo aftur í Elko í júlí 2023 og stal Samsung Galaxy-úri sem kostaði tæpar 60 þúsund krónur og tveimur Apple Airpods Pro-heyrnartólum sem kostuðu samtals 109.990.
Í ágúst 2023 stal hann svo Gucci-handtösku úr verslun Collage the shop og svo frakka og bol úr versluninni Gallerí Sautján nokkrum dögum síðar. Síðasta brotið samkvæmt ákæru varðar svo þjófnað á úlpu úr verslun 66 Norður fyrr á þessu ári.
Ef marka má dóminn virðist maðurinn hafa glímt við fíkniefnadjöfulinn því tveir ákæruliðir snúa að akstri undir áhrifum kókaíns. Hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og þá kom fram í máli verjanda hans að hann iðrist mjög og brotin skýrðust að mestu leyti af dómgreindarleysi vegna fíkniefnaneyslu. Hann hafi nú gert reka að því að snúa við blaðinu og hafi fengið vinnu.
Fangelsisdómurinn yfir manninum er skilorðsbundinn til tveggja ára, en auk þess var hann sviptur ökuréttindum ævilangt. Loks var honum gert að greiða Hagkaup, Elko og Lyfju samtals tæpa milljón vegna þess sem hann stal úr verslununum.