fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fréttir

Vilja banna spilakassa á Íslandi og skerða aðgengi að fjárhættuspilavefsíðum

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 19. september 2024 12:30

Sterkur vilji er til þess að spilakassar heyri sögunni til á Íslandi. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingflokkur Flokks fólksins hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um að rekstur spilakassa verði bannaður. Verði frumvarpið að veruleika mun það kosta ríkissjóð 4 milljarða króna í bótagreiðslur til hluthafa Íslandsspila auk ótilgreinds kostnaðar vegna aukinna framlaga ríkissjóðs til uppbyggingar og viðhalds fasteigna Háskóla Íslands til að bæta tekjutap sem Happdrætti Háskólans yrði fyrir. Þau framlög yrðu þó í formi lánveitinga ríkissjóðs til Háskólans. Flokkurinn segir í greinargerð með frumvarpinu að einnig sé þörf á aðgerðum til að skerða aðgengi hér á landi að erlendum vefsíðum sem bjóða upp á fjárhættuspil.

Í frumvarpinu er ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að ráðherra skuli gera samning við Háskóla Íslands um fjármögnun vegna uppbyggingar og viðhalds fasteigna á háskólasvæðinu. Áætlað tekjutap Happdrættis Háskóla Íslands vegna lokunar spilasala árin 2025–2028 skuli jafna á móti greiðslum vegna slíks samnings.

Engar upphæðir eru hins vegar nefndar í þessu ákvæði.

Í öðru brágðabirgðarákvæði í frumvarpinu segir að Ríkissjóður skuli greiða hluthöfum Íslandsspila bætur vegna tekjumissis að fjárhæð 1 milljarðs krónur, á ári hverju, árin 2025–2028. Skuli sú greiðsla skiptast þannig að Rauði krossinn á Íslandi fái 64 prósent, Slysavarnafélagið Landsbjörg fái 26,5 prósent og SÁÁ 9,5 prósent.

Flokkur fólksins leggur nú frumvarpið fram í fimmta sinn en það hefur ekki náð fram að ganga á síðustu fjórum þingum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars að fjárhættuspil séu almennt bönnuð á Íslandi. Í almennum hegningarlögum séu ákvæði sem kveði á um bann við fjárhættuspilarekstri og veðmálastarfsemi. Lengi hafi þó tíðkast að veita undanþágur frá þessu banni og heimila góðgerðarfélögum og almannaheillafélögum að starfrækja happdrætti, hlutaveltu, getraunir og spilakassa.

Meirihluti vilji bann

Í greinargerðinni segir enn fremur að stjórn SÁÁ hafi ákveðið árið 2020 að draga sig út úr rekstri Íslandsspila þrátt fyrir vænt tekjutap upp á tugi milljóna króna. Þáverandi formaður SÁÁ hafi sagt að samtökunum fyndist það ekki vera þess virði og ekki samræmast gildum SÁÁ að taka þátt í rekstri á spilakössum og vera þátttakandi í Íslandsspilum traust og virðing væri meira virði en tekjurnar. Þá hafi Rauði krossinn kallað eftir því að stjórnvöld innleiði svokölluð spilakort. Spilakort komi þá í veg fyrir að hægt sé að eyða umfram tiltekið viðmið í spilakassa á ákveðnu tímabili.

Samkvæmt könnun sem SÁÁ hafi látið framkvæma um viðhorf almennings til spilakassa vilji um 86 prósent Íslendinga banna slíkan rekstur. Þá hafi 71 prósent aðspurðra verið ósátt við að starfsemi í almannaþágu væri fjármögnuð með rekstri spilakassa. Spilakassar séu hannaðir til að ýta undir spilafíkn.

Engin erlend fjárhættuspil á Íslandi

Flokkur fólksins segist einnig vilja aðgerðir til að skerða aðgengi að erlendum vefsíðum sem bjóða upp á fjárhættuspil:

„Það er orðið löngu tímabært að hætta rekstri spilakassa á Íslandi. Það getur ekki réttlætt svo skaðlega starfsemi að ágóðinn renni til góðgerðarmála. Það gerir lítið gagn að innleiða svokölluð spilakort. Sú aðferð mundi hvorki leysa fjármögnunarvanda góðgerðarfélaga né vinna gegn vanda spilafíkla. Það eina sem dugar er algert bann. Þá er það engin afsökun að vísa til þess að Íslendingar hafi aðgang að fjárhættuspilum í gegnum erlendar vefsíður. Erlendar spilasíður eru vissulega skaðlegar og þörf er á frekari aðgerðum til að koma í veg fyrir aðgengi að þeim á Íslandi. Við getum ekki afsakað eigin sóðaskap með því að benda á háttsemi annarra. Við eigum að stefna að því að koma í veg fyrir aðgengi að erlendum spilasíðum í stað þess að nota tilvist þeirra til að réttlæta áframhaldandi rekstur spilakassa.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri