fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Haraldur segir Kastljós í gærkvöldi hafa verið átakanlegt – Lýsir ótrúlegri sögu sinni

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 19. september 2024 07:55

Haraldur Ingi Þorleifsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haraldur Ingi Þorleifsson, athafnamaður, stofnandi Ueno og fyrrverandi starfsmaður Twitter, segir að Kastljósþáttur gærkvöldsins hafi verið átakanlegur. Í þættinum var sagt frá sögu Óskars Kemp sem lenti í alvarlegu umferðarslysi á Reykjanesbraut árið 2018 og fékk alvarlegan heilaskaða. Nú þegar sex ár eru liðin frá slysinu fær hann ekki enn fulla þjónustu heima fyrir og var honum til dæmis neitað um næturþjónustu fyrir skömmu. Þetta gerðist þrátt fyrir að læknar teldu hann þurfa stuðning allan sólarhringinn.

Í þættinum var rætt við eiginkonu Óskars, Indu Hrönn, sem er sett í þá aðstöðu að hjúkra honum.

Óskar og Inda virðast ekki vera þau einu í þessum sporum því Haraldur Ingi lýsti einnig ótrúlegri þrautagöngu sinni á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, eftir þáttinn í gærkvöldi.

Þekkir þetta sjálfur

„Kastljós í kvöld var átakanlegt. Saga af manni sem slasaðist fyrir nokkrum árum og fær ekki aðstoð sem hann þarf. Konan hans er sett í þá aðstöðu að hjúkra honum sem er gífurlegt álag á fjölskyldulífið. Ég þekki það sjálfur,“ sagði Haraldur í ítarlegri færslu.

Hann segir að í sumar hafi hann lagt af stað í leiðangur til að reyna að fá svör um NPA sem er lögbundin þjónusta fyrir fólk með fötlun sem sveitarfélögin veita, eða eiga að veita.

„Fólk sem þarf á henni að halda sækir um. En það er (eða var amk í vetur, mögulega hefur það breyst) ekki auðvelt. Á vef Reykjavíkurborgar er engin umsókn. Þannig að ég hringdi. Fékk samtal við manneskju sem benti mér á að sækja um á netinu. Ég sagði að það væri ekki hægt og hún játaði því á endanum. Þá var mér sagt að ég fengi símtal. Það kom aldrei. Ég hringdi aftur. Aftur sagt að sækja um á netinu. Aftur sagði ég að það væri ekki hægt. Aftur sagt að það yrði hringt í mig. Aftur kom ekkert símtal,“ sagði Haraldur Ingi.

Hann segir að á endanum hafi honum tekist að ná í manneskju sem vinnur í þessum málum hjá borginni. Kveðst Haraldur hafa spurt hvernig ferlið væri og hvað það tæki langan tíma.

„Þá kom í ljós að eftir að búið er að fara í gegnum ítrekað og langt umsóknarferli þá fer umsóknin fyrir nefnd á vegum borgarinnar. Ég spyr hvað gerist þegar umsóknin er samþykkt, hvað tekur langan tíma þangað til að þjónustan byrjar. Þá segir sérfræðingur borgarinnar að enginn viti svarið við þeirri spurningu.“

Sagt að það væri best að fara bara í mál

Haraldur segist síðan hafa haft samband við forstöðukonu hjá velferðarsviði og spurt hana sömu spurningar.

„Hún segir mér að það sé nefnd á vegum ríkis og sveitarfélaga sem sé að fjalla um þetta. Ég hef samband við formann nefndarinnar. Þá er mér sagt að nefndin sé alls ekki að fjalla um NPA samninga. Starfsmaður nefndarinnar segir mér svo að það sé best að fara í mál við borgina. Ég hef aftur samband við forstöðukonu velferðarsviðs og bið um fund. Ég fer á fund með henni og manneskju sem er yfir þessum málum. Þar er mér sagt að þeirra hendur séu bundnar. Að ákvörðunin að fjármagna ekki samningana sé hjá borgarstjóra og borgarráði. Ég spyr hvað biðlistinn sé langur. Mér er sagt að það séu rúmlega 30 manns á biðlista. Svo er mér sagt að vonir standi til þess að sjö umsóknir verði fjármagnaðar á árinu. Ekki að það sé ákveðið, að það sé vonast til þess.“

Haraldur segist í kjölfarið hafa spurt hvert markmiðið væri á næsta ári og fengið þau skilaboð að vonandi verði sjö umsóknir einnig fjármagnaðar þá.

„Sem þýðir að biðlistinn er ca 5 ár. Þær segja mér líka að líklega sé best að fara í mál við borgina. Þetta eru sem sagt borgarstarfsmenn að segja mér að kæra borgina. Ég tala við borgarstjóra og formann borgarráðs. Þeir segja mér að vandamálið sé að ríkið hafi ekki komið með fjármagn til þess að það sé hægt að fjármagna þjónustuna. Ég fer þá á fund með Félagsmálaráðherra. Hann kemur af fjöllum. Segir að hann vissi ekki af því að það sé eitthvað vandamál. Ráðherra málaflokksins veit sem sagt ekki að það er fimm ára biðlisti eftir lögbundinni þjónustu. Hann virtist ekki skammast sín fyrir þessa vankunnáttu,“ segir Haraldur og er ómyrkur í máli.

Haraldur segir einnig að ráðherra hafi tjáð honum að aldrei hafi neinn frá sveitarfélögunum komið því á framfæri að eitthvað vantaði upp á með fjármögnun.

„Ég tala aftur við borgarstjóra og formann borgarráðs. Þeir taka saman mjög ítarlegan lista yfir athugasemdir sem sveitarfélögin hafa sent á ráðuneytið. Ég sendi listann á Félagsmálaráðherrann. Og ég legg til að það væri kannski sniðugt ef ráðherrann og borgarstjóri myndu hittast og ræða þetta alvarlega mál. Það kom ekkert svar frá ráðherranum þrátt fyrir nokkrar ítrekanir. Eftir því sem ég best veit hafa þeir ekki ennþá rætt málið.“

Tók vel í málið en hætti svo að svara

Haraldur er ekki þekktur fyrir að leggja árar í bát og kveðst hann hafa farið á fund fjármálaráðherra og sagt honum frá stöðunni. Lagði hann til að þetta yrði tekið inn í umræður um fjárlög.

„Hann tekur vel í að skoða málið. En hætti svo að svara fyrirspurnum. Málið fór ekki inn í fjárlagafrumvarpið,“ segir Haraldur.

Hann tekur fram að flestir sem sækja um þessa þjónustu séu mjög veikir og þeir hafi ekki möguleika á því að hitta fólkið sem hann hitti. Þau fái engin svör.

„Nálgun ráðamanna virðist vera að gera sem minnst. Helst hunsa vandamálið og vona að einhver annar leysi það. En það leysist ekki af því að það er ekkert samtal. Af því að þessir einstaklingar eru raddlausir og það er hægt að gera ekki neitt. Margra ára biðlistar og engin svör. Það er treyst á að fólkið sem þarf á þessari lögbundnu þjónustu kæri ekki. Þau eru of veik. Þau fáu sem kæra eru sett fram fyrir röð. Hinir eru heima með takmarkaða aðstoð. Oft mikið þjáð. Þeir sem eiga engan að eru sendir á elliheimili, ungt fólk. Sumir deyja. Verða veikari og veikari af því að aðstoðin kemur ekki. Aðstandendur brenna út og í sumum tilfellum hafa þeir sjálfir orðið öryrkjar við álagið. Þeir þurfa að velja á milli þess að fórna sinni heilsu, og lífi, til að sinna þeim sem þau elska. Þetta er ótrúlegt ástand. Og ábyrgðin er hjá stjórnvöldum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Áslaugu haldna ,,miklu blæti“

Sigríður segir Áslaugu haldna ,,miklu blæti“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögmaður leggur til að hætt verði að sækja fólk til saka vegna neysluskammta af kannabis

Lögmaður leggur til að hætt verði að sækja fólk til saka vegna neysluskammta af kannabis
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“