fbpx
Miðvikudagur 18.september 2024
Fréttir

Segir siðrof ástæðu aukningar ofbeldisbrota – „Hvernig ætlum við að bregðast við?“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 18. september 2024 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi segir fulla ástæðu til að landsmenn staldri við og spyrji sig:  „Af hverju er ofbeldisbrotum að fjölga. Að við leitum skýringa sem víðast og speglum okkur í þessum veruleika. Að við sem samfélag stöðvum frekari þróun í þessa átt.“

Í pistli á heimasíðu sinni segir Elliði forsíðu Morgunblaðsins á þriðjudag hrollvekjandi. „12 manndráp á tveimur árum“. Segir hann að siðrof geti verið gagnlegt til að útskýra íslenskan veruleika. „Í það minnsta er það tilraun til að reyna að skilja. Margar aðrar kenningar eru gagnlegar og vissulega er kenning hans [Emile Durkheim] gömul og hefur sætt gagnrýni en hún varpar hins vegar ljósi á ákveðið samhengi.

„Durkheim þróaði hugtakið siðrof til að lýsa ástandi þar sem hefðbundnar samfélagsreglur og gildi veikjast eða hverfa, sem veldur því að einstaklingar upplifa óöryggi og rugling um viðurkenndar hegðunarreglur. Þegar samfélag stendur frammi fyrir hröðum breytingum, eins og tækniframförum, getur þetta haft áhrif á félagslegu samloðunina (social cohesion) og leitt til siðrofs,“ segir Elliði og tengir við stöðuna á Íslandi í dag.

Fjölgun alvarlegra afbrota og morða

„Aukning í afbrotum gæti verið einkenni siðrofs í samfélögum þar sem félagslegt jafnvægi er í hættu, til dæmis vegna hraðra samfélagsbreytinga, eða minnkandi félagslegra tengsla,“ segir Elliði og vísar til Durkheim.  Bendir Elliði á að hérlendis hefur á síðustu árum orðið nokkur fjölgun alvarlegra afbrota og morða, og það gæti tengst samfélagslegum breytingum, þar með talið auknum innflytjendastraumi, efnahagsbreytingum, eða jafnvel áhrifum alþjóðavæðingar. 

Segir hann stöðu grundvallarstofnana, eins og Alþingi, kirkju og dómstóla, hafa veikst og traust til þeirra afar skert. „Þessar breytingar geta leitt til þess að hefðbundnar félagslegar viðmið veikjast eða verða óskýrari.

Ástand siðrofs kemur fram þegar einstaklingar líta ekki lengur á félagsleg gildi sem leiðarljós fyrir hegðun þeirra, og slíkt ástand getur verið hvatning til aukinnar afbrotahegðunar.“

Samfélagsmiðlar og áhrif þeirra

Tíðrætt hefur verið um samfélagsmiðla og áhrif þeirra og kemur Elliði einnig inn á þá í pistli sínum. Segir hann áhrif samfélagsmiðla á sjálfsmynd einstaklinga, sérstaklega ungmenna, geta verið veruleg.

„Aukin notkun samfélagsmiðla hefur haft veruleg áhrif á samskipti, sjálfsmynd, og félagslega hegðun. Durkheim hefði líklega séð þetta sem mikilvægan þátt í samfélagslegum breytingum sem geta leitt til siðrofs. Á samfélagsmiðlum dreifast upplýsingar mjög hratt, og á sama tíma verður ofgnótt upplýsinga og áhrifa frá ólíkum heimshornum. Það getur stuðlað að ringulreið um hvaða gildi og norm eru rétt eða viðeigandi, sérstaklega þegar óeðlileg eða ofbeldisfull hegðun er sýnd í nýju ljósi eða jafnvel verðlaunuð með samfélagsmiðlaathygli. Svo langt er gengið í kröfunni um að allir fái að hafa sína skoðun að uppi er krafa um að allir fái að lifa við sinn eigin veruleika, hvort sem hann styðst við einhver ytri sannindi eða ekki,“ segir Elliði og heldur áfram:

„Pressa til að fylgja „fullkomnu“ lífi eða svara kröfum samfélagsins getur ýtt undir óöryggi, vonbrigði og upplifað siðrof, sem Durkheim tengdi við aukna hættu á andfélagslegri hegðun.“

Dreifing neikvæðra viðhorfa og áhrif ofbeldis

Elliði segir Durkheim meðvitaðan um hvernig samfélagslegt siðrof gæti aukið tíðni ofbeldisbrota

„Með samfélagsmiðlum getur verið auðvelt að normalísera ofbeldi og andfélagslega hegðun, þar sem dreifing neikvæðra viðhorfa og æsifréttamennska skapar meiri óstöðugleika.

Samfélagsmiðlar geta aukið tækifæri fyrir fólk að tengjast jaðarhópum eða fá meiri athygli fyrir óeðlilega hegðun, þar með talið glæpi. Þetta getur styrkt tengsl siðrofs við alvarleg afbrot.“

Elliði endar á að ef siðrofskenning Durkheim er heimfærð á samtímaatburði á Íslandi, megi halda því fram að aukning alvarlegra afbrota og morða geti verið birtingamynd af flóknu sambandi milli notkunar samfélagsmiðla, hnignun grunvallarstofnanna og fleira. 

„Að við séum með samfélag í svo hraðri breytingu að hefðbundnar venjur, reglur og gildi verði óskýrari. Samfélagsmiðlar geta bæði styrkt tengsl siðrofs með því að grafa undan stöðugum viðmiðum og bjóða upp á vettvang þar sem andfélagsleg hegðun getur fengið frekari athygli og dreifingu. Durkheim hefði líklega sagt að þetta ástand kalli á sterkari félagslega samheldni og endurnýjun samfélagslegra gilda til að vinna gegn aukinni glæpatíðni.

Stóra spurningin er hinsvegar: „Hvernig ætlum við að bregðast við?““

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Segja að Pútín ætli sér sigur fyrir þennan tíma

Segja að Pútín ætli sér sigur fyrir þennan tíma
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Þegar ráðherra blikkar ekki auga og segir að óréttlæti sé í raun réttlæti þá fer um mann hrollur“

„Þegar ráðherra blikkar ekki auga og segir að óréttlæti sé í raun réttlæti þá fer um mann hrollur“
Fréttir
Í gær

Birgir segir að Sólveig Anna hafi ekki svarað tölvupósti og aldrei hringt til baka

Birgir segir að Sólveig Anna hafi ekki svarað tölvupósti og aldrei hringt til baka
Fréttir
Í gær

„Maður veltir því fyrir sér hvað sé að gerast“

„Maður veltir því fyrir sér hvað sé að gerast“