fbpx
Miðvikudagur 18.september 2024
Fréttir

Deilur fyrrum Panamaskjala-pars halda áfram – Hilmar lagði sína fyrrverandi aftur eftir alvarlegar ávirðingar um misferli og vanhæfni

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 18. september 2024 12:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aflandsfélag krafðist þess að íslensku félagi yrði slitið vegna meints misferils og vanhæfni forsvarsmannsins. Á bak við málið eru harðar deilur fyrrum sambýlisfólks sem rata nú í annað sinn fyrir dóm.

Aflandsfélagið heitir GX Holding og er forsvarsmaður þess Guðfinna Magney Sævarsdóttir. Félagið var stofnað á Cayman-eyjum árið 2013 og kom fyrir í Panamaskjölunum svokölluðu. Á þeim tíma átti þáverandi sambýlismaður hennar, Hilmar Ágúst Hilmarsson, félagið með henni. Síðar slitnaði upp úr sambandi þeirra Guðfinnu og Hilmars sem hafa síðan staðið í harðvígum deilum. Sumarið 2023 vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur máli frá dómi þar sem Guðfinna krafðist greiðslu fyrir vinnu sem hún hafi unnið af hendi fyrir félag í eigu Hilmars. Hún rak málið í gegnum aflandsfélag sitt sem kom henni í koll þar sem dómari taldi ekki nægilega sannað að félagið hefði aðildarhæfi hér á landi.

Þann 17. september féll svo dómur í öðru máli sem Guðfinna hafði höfðað gegn Hilmari. Að þessu sinni stefndi hún í gegnum GX Holding sem og í eigin nafni. Stefndi í málinu var íslenska fyrirtækið BIRK Invest ehf  sem Guðfinna og Hilmar eiga saman, en Hilmar er í forsvari fyrir. Félagið er skráð til húsa á Reykjavíkurflugvelli en DV hefur áður fjallað um farsakenndan rekstur Hilmars á Reykjavíkurflugvelli, en um hann má lesa nánar hér.

BIRK Invest hefur ekki eiginlega starfsemi hér á landi heldur á félagið tvö dótturfélög í Frakklandi sem meðal annars sjá um rekstur á gistiheimili. Guðfinna hélt því fram að Hilmar hefði gróflega misnotað stöðu sína í dótturfélögunum, dregið að sér fé, búið frítt á hótelinu ásamt frænku sinni og notað greiðslukort dótturfélagsins líkt og það væri sitt eigið. Þar með hafi hún orðið að tekjum. Eins hefði hún unnið fyrir dótturfélagið á tímabili en aldrei fengið það greitt.  Loks hélt  hún fram að Hilmar hefði gróflega brotið gegn sér þegar hann jók hlutafé í dótturfélagi án þess að gefa henni kost á að taka þátt og án þess að gæta að formreglum. Að öllu þessu gættu væru forsendur til að slíta félaginu með vísan til misferils og vanhæfni Hilmars.

Allt eigi sér eðlilega skýringu

Hilmar sagðist þó saklaus. Fyrir það fyrsta hefði BIRK Invest verið alfarið í hans eigu áður en hann af örlæti gaf Guðfinnu helminginn. Dótturfélögin hafi verið í rekstri áður en Guðfinna kom að félaginu og hafi það verið stundað lengi að leyfa starfsmönnum að búa á hótelinu, en slíkt væri í hag rekstursins þar sem starfsmenn hótela þurfi gjarnan að vera til taks allan sólarhringinn. Sjálfur hafi hann tekið frá pláss fyrir vini og ættingja á lágannatímum þar sem hótelið var ekki fullbókað og þar með hafi reksturinn ekki orðið að tekjum. Sjálfur hafi hann haft búsetu á hótelinu til að vera rekstrinum til taks auk þess sem hann hefði aldrei þegið laun fyrir vinnu sína fyrir reksturinn heldur tekið launin út í gistingu. Guðfinna hafi aldrei unnið hjá dótturfélögunum heldur um tíma verið skráð sem starfsmaður til málamynda svo hún gæti fengið sjúkratryggingu í Frakklandi. Þetta hafi hún vitað enda aldrei unnið handtak fyrir reksturinn og verið sjálf í fullri vinnu sem flugmaður á nefndu tímabili.

Hilmar neitaði því að hafa notað greiðslukort og tekjur dótturfélaganna í eigin þágu, þvert á móti hafi hann dælt peningum í reksturinn til að halda honum á floti eftir Covid. Reksturinn hafi svo skilað hagnaði í fyrsta sinn í langan tíma árið 2022 svo ekki sé hægt að saka hann um vanhæfni. Fyrir utan þetta allt sé rekstur dótturfélaganna í Frakklandi og fylgi því frönskum lögum. Gætt hafi verið að frönskum formreglum við aukningu á hlutafé og auk þess hafi Guðfinnu verið gefinn kostur á þátttöku en hún svarað skýrt að hún hefði ekki tök á því að taka þátt.  Loks benti Hilmar á að ef hann væri sekur um fjárdrátt líkt og Guðfinna haldi fram, hvers vegna sé lögregla ekki með það til rannsóknar.

Dómari rakti að Guðfinna hefði sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum um meinta misnotkun Hilmars á aðstöðu sinni og á meintri vanhæfni. Hún hafi þó ekki lagt fram nein gögn eða leitt fram vitni til að sanna mál sitt. Þar með var Hilmars sýknaður en dómari sagði:

„Á stefnendum hvílir sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum þeirra um að hluthafinn Hilmar Ágúst hafi misnotað aðstöðu sína hjá umræddum dótturfélögum stefnda. Þau hafa ekki freistað þess að afla frekari upplýsinga um þetta atriði fyrir dóminum, t.d. með vitnskýrslum eða framlagningu gagna. Hafa þau að mati dómsins ekki fært fullnægjandi sönnur fyrir því að umrædd málsástæða eigi við rök að styðjast og fellst dómurinn því ekki á hana.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Segja að Pútín ætli sér sigur fyrir þennan tíma

Segja að Pútín ætli sér sigur fyrir þennan tíma
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Þegar ráðherra blikkar ekki auga og segir að óréttlæti sé í raun réttlæti þá fer um mann hrollur“

„Þegar ráðherra blikkar ekki auga og segir að óréttlæti sé í raun réttlæti þá fer um mann hrollur“
Fréttir
Í gær

Birgir segir að Sólveig Anna hafi ekki svarað tölvupósti og aldrei hringt til baka

Birgir segir að Sólveig Anna hafi ekki svarað tölvupósti og aldrei hringt til baka
Fréttir
Í gær

„Maður veltir því fyrir sér hvað sé að gerast“

„Maður veltir því fyrir sér hvað sé að gerast“