ASÍ segir í yfirlýsingu að athafnamaðurinn Quang Le hafi viðhaft ósönn ummæli og rógburð um starfshætti sambandsins í viðtali við Mbl.is.
Quang Le er nú laus úr gæsluvarðhaldi en hann var hnepptur í það í kjölfar rannsóknar á viðskiptaháttum hans en hann hefur verið sakaður um meðal annars vinnumansal og peningaþvætti.
Í viðtalinu segir meðal annars:
„Quang Le segir að ASÍ hafi margsinnis talað við starfsfólk á hans vegum og reynt að sannfæra það um að snúast gegn vinnuveitanda sínum.
Hann telur að ASÍ hafi gert starfsfólki ljóst að ef það myndi votta fyrir meint brot hans gæti það átt háa kröfu í þrotabú félaga í hans eigu en eignir þar eru umtalsverðar og ábyrgð ríkisins á launakröfum sterk.
Þá segir hann ASÍ hafa hótað fólki því að reka það úr landi nema það myndi spila með.
Nefnir hann að einn starfsmaður verkalýðssambandsins, Adam Kári Helgason, af kjarasviði ASÍ, sem var einn viðmælenda Kveiks sem gerði fréttaþátt um meint afbrot Quang Le, hafi gengið sérstaklega hart fram og jafnvel tjáð starfsfólki fyrir fram að hann ætlaði að „taka Quang Le niður“.“
ASÍ segir þetta ósatt og fela í sér rógburð:
„Á fréttavefnum mbl.is eru í dag, 18. september 2024, birt miður vönduð og ósönn ummæli kaupsýslumannsins Quang Le um starfshætti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og vinnustaðaeftirlitsfulltrúa. Einnig er vegið að einstökum starfsmönnum með rógburði.
Ummæli þessi eru að öllu leyti tilhæfulaus og ósönn.
ASÍ ber fullt traust til vinnustaðaeftirlitsfulltrúa sinna og er stolt af þeim árangri sem náðst hefur undanfarin misseri í baráttunni gegn mansali og misneytingu á íslenskum vinnumarkaði.
Handtaka Quang Le og aðgerðir gegn honum og öðrum sem tengjast málinu eru á ábyrgð lögreglu og í þar til gerðum farvegi.“