fbpx
Laugardagur 14.september 2024
Fréttir

Varð fyrir heilaskaða en fékk ekki að vita það fyrr en löngu síðar – Segir meðferðina á Landspítalanum hafa verið algjörlega ófullnægjandi

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 14. september 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest ákvörðun Sjúkratrygginga um að synja konu um bætur úr sjúklingatryggingu. Konan varð fyrir þungu höfuðhöggi árið 2007 og varð fyrir heilaskaða en segir að henni hafi ekki verið tjáð það fyrr en mörgum árum seinna. Hún segir að meðferðin sem hún hlaut á Landspítalanum hafi verið algjörlega ófullnægjandi og fór því fram á bætur. Konan segist hafa síðan hún varð fyrir höfuðhögginu hafa glímt við margvíslegar afleiðingar þess og líf hennar hafi breyst verulega til hins verra.

Í úrskurðinum er saga konunnar rakin mjög ítarlega. Í kærunni til nefndarinnar segir hún sögu sína bæði óásættanlega og sorglega. Hún hafi verið í farsælu starfi og verið með fínar tekjur þegar hún hafi lent í slysi en konan datt og lenti harkalega á hnakkanum. Hún var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann og þar voru teknar myndir sem sýndu mar, blæðingar og bjúg í framheila.

Í úrskurðinum er vitnað í sjúkraskrá konunnar og þar kemur skýrt fram að til staðar hafi verið blæðingar, bjúgur og mar í heila hennar eftir höggið.

Konan segist hafa verið lögð inn í einn sólarhring en síðan send heim. Hún hafi verið kölluð síðar í aðra myndatöku sem hafi, samkvæmt sjúkraskrá, sýnt að talsverðu leyti óbreytt ástand. Eftir það hafi hún ekki fengið frekari meðferð og heldur ekki neina fræðslu um heilaskaða og hvaða afleiðingar slys af þessu tagi geti haft.

Samkvæmt sjúkraskrá var sagt við hana að hún ætti að taka því rólega í 1-2 vikur og svo gæti hún gert það sem hún vildi.

Konan segir henni hafi aldrei verið tjáð að hún hefði orðið fyrir heilaskaða og að slysið myndi hafa verulegar afleiðingar í för með sér.

Gat ekki haldið áfram í vinnunni

Konan segist hafa snúið aftur til vinnu en þar hafi komið upp ýmis vandamál sem hafi gert henni ókleift að halda áfram og hún því sagt upp. Enginn hafi hins vegar tengt neitt af þessu við slysið.

Hún segir að henni hafi gengið illa að einbeita sér og muna, hana hafi vantað orð, hún hafi hugsað hægt og ráðið illa við álag. Einnig hafi orðið persónuleikabreytingar. Hún hafi farið úr einni vinnunni í aðra og alltaf hafi henni gengið illa og á endanum verið sagt upp. Hún hafi einfaldlega ekki ráðið við verkefnin.

Lýsti konan langvarandi vanlíðan, miklum kvíða og streitu og sagðist á endanum hafa farið í veikindaleyfi. Hún segist hafa rætt þennan langvarandi vanda sinn við heimilislækni en aldrei hafi það verið tengt við höfuðáverkana.

Loks hafi verið sótt um fyrir hana hjá Virk starfsendurhæfingu. Það hafi gengið illa og ráðgjafi hjá Virk hafi lítið getað hjálpað henni. Konan segir að henni hafi verið tjáð að hún myndi sennilega aldrei komast aftur út á vinnumarkaðinn og að hún væri með slæmt orð á sér. Þegar hún hafi rætt við sálfræðing hafi hún verið spurð hvort hún hefði orðið fyrir höfuðáverkum. Hún hafi svarið því játandi og þá hafi sálfræðingurinn ráðlagt henni að kalla eftir öllum gögnum frá Landspítalanum sem hún hafi gert. Þá loks hafi hún gert sér grein fyrir að hún hefði verið með heilaskaða allan tímann.

Í úrskurðinum er á eftir þessari frásögn vitnað þar aftur í sjúkraskrá konunnar og þótt þar sé um mjög fræðilegt orðfæri að ræða blasir við að konan hlaut sannarlega heilaskaða og að áverkar hennar voru alvarlegir.

Fékk enga endurhæfingu

Konan segir í kæru sinni þarna loks eftir töluverðan tíma hafa fengið að vita að vanlíðan hennar og erfiðleikar, við til að mynda einbeitingu og að höndla álag, stöfuðu af slysinu. Hún hafi ekki verið send í endurhæfingu eða fengið fræðslu eins og rétta leiðin hefði verið. Þá hefði hún getað lært betur inn á sjálfa sig, lært nýjar leiðir eins og taugasálfræðingur hafi tjáð henni.

Konan segir að hefði henni verið sagt að slysið og höfuðáverkarnir hefðu slíkar afleiðingar hefði hún getað skýrt stöðu sína fyrir fjölskyldu, vinum, vinnuveitendum og samstarfsfólki og fengið þá meiri skilning.

Konan er í dag öryrki og á biðlista eftir því að komast í þjónustu hjá heilaskaðateymi ónefndrar sjúkrastofnunar en væntanlega er þar um Landspítalann að ræða.

Vissi ekki og sótti því ekki um neinar bætur

Konan segir hún hafi aldrei fengið þjónustu, endurhæfingu, fræðslu, eftirfylgni eða hvað mögulega gæti orðið. Í mörg ár hafi hún ekki vitað að hún væri með heilaskaða.

Læknar hafi ekki staðið rétt að málum þegar hún lenti í slysinu. Segir konan að hefði hún fengið að vita strax að hún væri með heilaskaða hefði hún getað sótt um bætur hjá tryggingafélagi eða Sjúkratryggingum en af því hún hafi aldrei fengið að vita að slysið myndi hafa svo alvarlegar afleiðingar hafi hún aldrei tilkynnt um það. Hún hafi beðið mikið fjárhagslegt tjón og orðspor hennar beðið hnekki vegna mikilla erfiðleika hennar í vinnu af völdum slyssins.

Því miður fyrnt

Sjúkratryggingar höfðu áður hafnað ósk konunnar um bætur úr sjúklingatryggingu á þeim grundvelli að krafa hennar væri fyrnd. Konan segir óréttlátt að bera við fyrningu þar sem hún hafi ekki getað tilkynnt um slysið og farið fram á bætur fyrr en svo löngu síðar þar sem hún hafi aldrei vitað og aldrei verið sagt að hún hefði orðið fyrir heilaskaða. Meðferðin sem hún hafi hlotið upphaflega hafi verið allsendis ófullnægjandi.

Í lögum um sjúklingatryggingu segir að kröfur um bætur samkvæmt lögunum fyrnist þegar fjögur ár séu liðin frá því að tjónþoli hafi fengið eða hafi mátt fengið vitneskju um tjón sitt. Krafan fyrnist þó eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér.

Konan minnti á í kæru sinni að lögunum væri ætlað að auka bótarétt sjúklinga sem bíði heilsutjón vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð.

Konan sótti um bætur á yfirstandandi ári en Sjúkratryggingar höfnuðu umsókninni og vísuðu í ákvæði laganna um að meira en 10 ár væri liðin frá atvikinu.

Kærunefnd velferðarmála tekur undir þá niðurstöðu og segir lögin skýr. Kröfur í sjúklingatryggingu fyrnist á 10 árum óháð því hvenær viðkomandi fékk upplýsingar um það tjón sem hann varð fyrir.

Konan situr því eftir bótalaus.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ísland og átta önnur ríki reið út í Alþjóða gjaldeyrissjóðinn – Ætla að ráðleggja Rússum

Ísland og átta önnur ríki reið út í Alþjóða gjaldeyrissjóðinn – Ætla að ráðleggja Rússum
Fréttir
Í gær

„Afar þungbært að stéttarfélagið Efling kjósi að efna til mótmæla fyrir utan veitingastað okkar og persónugera þau með myndum af mér“

„Afar þungbært að stéttarfélagið Efling kjósi að efna til mótmæla fyrir utan veitingastað okkar og persónugera þau með myndum af mér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Halldór: Leigubíllinn í Mosó kostar 8.000 – Kostar minna að ferðast um allt Þýskaland í heilan mánuð

Halldór: Leigubíllinn í Mosó kostar 8.000 – Kostar minna að ferðast um allt Þýskaland í heilan mánuð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingólfur ánægður með sátt og afsökunarbeiðni frá baráttukonu – „Frábært að einhverjir af þeim sem gengu hvað harðast fram eru að sjá að sér“

Ingólfur ánægður með sátt og afsökunarbeiðni frá baráttukonu – „Frábært að einhverjir af þeim sem gengu hvað harðast fram eru að sjá að sér“