Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir í nýrri Facebook-færslu frá tölvupósti sem hún fékk í morgun frá starfsmanni Elvars Ingimarssonar veitingamanns. Starfsmaðurinn lýsir þar m.a. óhóflega löngum vinnutíma á of lágum launum og því að hann þurfi nánast að grátbiðja Elvar um að fá launin sín greidd sem berist þó seint og illa.
Athygli vakti fyrr í vikunni þegar Efling stóð fyrir mótmælum fyrir utan veitingastaðinn Ítalíu á Frakkastíg sem Elvar á og rekur. Segir félagið hann sekan um að greiða starfsfólki sínu ekki laun og að nokkrar milljónir króna séu nú í innheimtu hjá fyrirtækjum hans vegna vangreiddra launa.
Sólveig Anna var afar harðorð í garð Elvars og sagði hann ástunda launaþjófnað.
Elvar bar sig illa en viðurkenndi að hafa átt í erfiðleikum með að greiða laun. Bar hann fyrir sig minnkandi tekjur vegna áhrifa Covid-faraldursins og því að hafa þurft að flytja veitingastað sinn Ítalíu í annað húsnæði.
Sólveig Anna gaf hins vegar lítið fyrir þær skýringar og birti frásagnir nokkurra fyrrverandi starfsmanna Elvars um meðal annars hvernig hann hefði hlunnfarið þá.
Sólveig segir Elvar ljúga – Skuldi skjólstæðingum Eflingar tvöfalt meira en hann viðurkennir
Frásögn sem Sólveig Anna greinir frá á Facebook nú í dag virðist vera frá einstaklingi sem er enn starfsmaður hjá Elvari. Sólveig skrifar:
„Í morgun barst mér póstur frá einstaklingi sem starfar hjá Elvari Ingimarssyni. Þessi einstaklingur vinnur gríðarlega marga tíma á mánuði, allt að 250 tíma. Hann fær yfirvinnutímana greidda sem venjulega dagvinnutíma. Hann þarf að grátbiðja um að fá launin sín greidd og þau eru greidd seint og aldrei öll í einu. Á meðan að Elvar Ingimarsson barmar sér í fjölmiðlum er þetta staðan hjá vinnuaflinu. Geðslegt, eða hitt þó heldur.“