Ísland er á meðal níu Evrópuríkja sem mótmæla ákvörðun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um að hefja aftur starfsemi í Rússlandi. Sjóðurinn eigi ekki að gefa Rússlandi ráð um hvernig eigi að efla efnahaginn og þar af leiðandi efla getu landsins til að herja á Úkraínu.
Sigurður Ingi Jóhannsson er á meðal níu fjármálaráðherra Evrópuríkja sem leggja fram kvörtunina. Hin ríkin eru Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland, Eistland, Lettland, Litháen og Pólland.
Eftir innrás Rússa inn í Úkraínu í febrúar árið 2022 hætti Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn árlegum ráðleggingum til Rússa. En slíkar ráðleggingar veitir hann öllum öðrum aðildarríkjum.
Þann 2. september síðastliðinn tilkynnti sjóðurinn að ráðleggingarnar til Rússa myndu hefjast að nýju þann 16. september og myndi sendinefnd sjóðsins fara til Moskvu þann 1. október.
„Við lýsum yfir mikill andstöðu við allar slíkar áætlanir,“ segir í bréfi fjármálaráðherranna níu til Kristalinu Georgieva, hinnar búlgörsku framkvæmdastýru sjóðsins. Árásarríki eins og Rússland ætti ekki að fá neinar ráðleggingar frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Einnig myndi þetta draga úr trúverðugleika sjóðsins og letja ríki til þess að styðja Úkraínu í gegnum verkefnum á hans vegum. Gjafaríkin myndu frekar velja Alþjóðabankann eða Evrópubankann til þess í framtíðinni.
Þá var einnig bent á það að öll gögn sem Rússar myndu sýna fulltrúum Alþjóða gjaldeyrissjóðnum yrðu fölsuð og látið líta út eins og landið væri að standast efnahagsþvinganir Vesturlanda. Allt mat sjóðsins byggt á slíkum gögnum væri gagnslaust.
„Við hvetjum allar alþjóðlegar stofnanir, þar á meðal Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og stjórnendur hans, að halda áfram að stunda ekki starfsemi í árásarríkjum og byrja ekki samtal á ný svo lengi sem Rússar halda áfram sínu árásarstríði gegn Úkraínu,“ segir í bréfinu.