Um var að ræða elstu starfandi fiskbúðina á höfuðborgarsvæðinu og sagði eigandinn, Ágúst Tómasson, í viðtali við Vísi í dag að persónulegar ástæður liggi að baki þeirri ákvörðun að skella í lás. „Fiskverð hefur náttúrulega hækkað mikið og þá dregur úr neyslunni. En það hefur allt verið að hækka. Það hefur líka verið erfitt að fá yngra fólk til starfa,“ sagði hann við Vísi.
Í færslu sinni benti Kristján á að fiskbúðum í Reykjavík hefði fækkað úr 30 niður í aðeins 6. „Þetta eru sorglegar fréttir,“ sagði Kristján og benti á að fiskbúðin í Trönuhrauni hefði haft orðspor á sér að vera alltaf með góðan fisk og halda á lofti íslenskum hefðum og íslensku hráefni. Þar hefði verið boðið upp á skötu, siginn fisk, sólþurrkaðan saltfisk, svartfisk og svartfuglsegg svo dæmi séu tekin.
„Það sem ég hef áhyggjur af og hef ég haft þessar áhyggjur lengi, er að þessar fiskverslanir eru hratt að týna tölunni. Þeim fækkar og fækkar. Það sem gerist líka er að uppruni okkar, sá matur og matarmenning okkar sem við borðuðum í gamla daga er að hverfa. Nægir að nefna hrikalega mikla niðursveiflu í sölu á ferskum þorskhrognum,“ sagði Kristján sem sagði að sjálfur borði hann hrogn en á sama tíma þyki hann vera gamaldags karlmaður.
„Ég get litlu breytt um framtíð fisksölu hér á landi. Ég hef lagt mig allan fram við að reyna að selja og markaðssetja fisk. En það virðist hafa mistekist hrikalega,“ sagði hann í færslu sinni og tók fram að hann hefði miklar tilfinningar til ævistarfs síns, enda rétt orðinn 18 ára þegar hann byrjaði að selja fisk og þá voru fiskverslanirnar í Reykjavík 30 talsins.
Kristján hvetur að lokum landsmenn til að borða meiri fisk og heimsækja þær verslanir sem enn selja þetta úrvalshráefni að minnsta kosti einu sinni í viku.
„Án viðskiptavina þá loka fleiri verslanir innan skamms. Þannig virka bara þessi viðskipti. Sorgarkveðja og sendi ég landsmönnum mínar dýpstu samúðarkveðjur.“