fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Fólk hneykslað á leiguverði blokkaríbúðar: Eigandinn segir stöðuna ömurlega og ætlar að flytja frá Íslandi

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 12. september 2024 14:00

Mynd: Skjáskot af auglýsingunni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að auglýsing sem birtist í Facebook-hópnum Leiga í gær hafi vakið athygli. Um er að ræða 104 fermetra fimm herbergja íbúð í nýlegu fjölbýlishúsi í Hafnarfirði sem leigist á 515 þúsund krónur á mánuði. Hátt í 400 athugasemdir hafa verið skrifaðar við auglýsinguna þar sem sumir gagnrýna verðið harðlega. Eigandi íbúðarinnar segir að staðan hér á landi sé ömurleg en til að missa ekki íbúðina verði hún að fá þessar leigutekjur.

Auglýsingin birtist um kvöldmatarleytið í gærkvöldi og segir eigandinn að vegna flutninga úr landi þurfi hún að leigja út íbúðina sem er býsna lagleg. Tekið er fram að stutt sé í skóla, leiksvæði, Krónuna, Bónus, World Class og Ásvallalaug og Suðurbæjarlaug svo eitthvað sé nefnt. Þá er krafist þriggja mánaða tryggingar við undirskrift og þarf því nýr leigjandi að reiða fram rétt rúmar tvær milljónir króna fyrsta mánuðinn.

„Er ekki í lagi?“

Sem fyrr segir hefur auglýsingin vakið athygli og hefur konan sem auglýsti íbúðina fengið yfir sig talsverða gagnrýni. Hér má sjá dæmi um athugasemdir undir auglýsingunni:

„Þetta er galið verð“

„Bíddu, eruði að fjármagna flutningana eða?“

„Ha er ekki í lagi“

„Ég bara skil ekki hvernig rétt rúmlega 100fm íbúð geti alið af sér þessar leigutekjur.“

„Held að fólk sem á 2m nú þegar safni frekar aðeins lengur og kaupir sér fasteign.“

„Er fólk virkilega orðin svona galið…2.060.000kr á fyrsta mánuð. Mikið er þetta sorglegt að sjá fyrir ALLA.“

Barnalegar athugasemdir

Ýmsir koma konunni þó til varnar og segir til dæmis einn augljóst að margir þeirra sem tjá sig hafi nákvæmlega enga hugmynd um hvað afborganir af fasteignalánum eru háar í sumum tilfellum.

„Við erum að tala um ca. 400 þúsund fyrir tveggja svefnherbergja íbúð ef þú ert með óverðtryggt lán. Síðan ofan á það koma fasteignagjöld, hússjóður, hiti og rafmagn og svo auka tvær milljónir kannski óvænt því þakið er ónýtt eða 3 milljónir því það þarf að skipta um glugga,“ segir viðkomandi í athugasemd sinni og bætir við:

„Haldiði í alvöru bara að hver og einn leigusali sé bara djöfullinn í mannsmynd og sé hlæjandi, teljandi seðlana sína? Auðvitað ekki. Ekki vera svona barnaleg. Fólk er rétt svo að ná að halda í íbúðina sína sem það var fyrir ekki svo löngu að týna krónur af götunni til að eiga efni á útborgun, sem voru kannski „litlar“ 18 milljónir. Aleigan fór í íbúðina. Fólk ræður ekki við að leigja út íbúð á 250.000 sem kostar 450.000kr að borga af. Það ræður enginn við 200.000kr halla hvern mánuð „bara til að vera næs“. Og svo missir fólk íbúðirnar sínar, hvað gerist þá? Haldiði að fasteignafélögin sem sópa upp íbúðum sem fóru í þrot, séu að fara vera eitthvað næs,“ spyr viðkomandi í athugasemd sinni sem er með yfir hundrað „læk“.

Leiguverð á blokkaríbúð hneykslar -„Enginn með meira en hálfan heila sem myndi leigja þetta á þessu verði“

Vilja búa í landi sem hugsar betur um fólkið sitt

Konan sem leigir íbúðina segir að þetta sé einmitt málið. Það sé ekki hægt að agnúast út í hana og fólk sé að beina reiði sinni að röngum aðila. Ástandið á íslenskum fasteignamarkaði sé bein afleiðing af aðgerða- eða aðgerðaleysi stjórnvalda. „Beinið reiði ykkar að stjórnvöldum! Ekki veitir af!,“ segir konan.

Hún segir að hún og maður hennar séu á fimmtugs- og sextugsaldri sem brunnu út á fasteignamarkaðnum hér á landi þegar þau bjuggu í Noregi um margra ára skeið.

„Við seldum allt úti og tókum allan okkar pening hingað heim og keyptum það eina sem bauðst á steindauðum fasteignamarkaði,“ segir konan og bætir við að hún hafi haft vel efni á íbúðinni áður en lánin hækkuðu. Staðan í dag sé önnur og erfiðari. „Ef ég sleppi því að leigja hana þá missi ég hana. Ef ég lækka leiguverðið þá missi ég hana.“

Konan segir að henni þyki þessi staða leiðinleg. „Og jú mér þykir þetta jafn ömurlegt og held ég bara flest öllum öðrum. En það er líka ömurlegt að vera íbúðareigandi og þurfa að leigja út íbúðina sína og borga með henni,“ segir konan og kjarnar svo tilfinningu margra Íslendinga í eftirfarandi setningu:

„Enda erum við að flytja aftur út. Viljum ekki búa hérna lengur og taka þátt í þessu. Viljum búa í landi sem hugsar betur um fólkið sitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Í gær

Eldgos hafið á Reykjanesi

Eldgos hafið á Reykjanesi
Fréttir
Í gær

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“