Hafnarfjarðarbær hefur sagt upp leigusamningi við móður sem býr með tveimur börnum sínum í leiguhúsnæði á vegum bæjarins. Konan skuldar marga mánuði í húsaleigu en hefur biðlað til bæjarins um frest þar til hagur hennar vænkast. Konan segir að greiðslusamningur sem bærinn býður henni sé þannig að hún gæti aldrei staðið við hann.
Konan viðurkennir í viðtali við DV að leigan sé hagstæð miðað við það sem gengur og gerist en hún sé tímabundið með afar lágar tekjur þar sem hún þarf að draga fram lífið á félagslegri aðstoð frá bænum. Þess vegna hefur hún ekki alltaf getað staðið í skilum með leiguna:
„Ég skulda húsaleigu og það hefur ekki verið sjens að semja þó að ég sé einstæð móðir með tvö börn. Húsaleigan er vissulega ekki há miðað við almennan markað á Íslandi, hún er 115 þúsund, en ég er aðeins með 220 þúsund í framfærslu á mánuði,“ segir konan. Hún nýtur ekki meðlagsgreiðslna þar sem tvö barna hennar búa hjá henni og tvö hjá föður sínum.
„Þetta er eiginlega bara samansafn yfir dálítið langan tíma. Ég hef verið í ferli hjá Tryggingastofnun, þannig að ég hef verið að fá fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu á meðan. Suma mánuði næ ég að borga húsaleigu en þá eigum við ekki mat í ísskápnum heima. Suma mánuði næ ég húsaleigunni en suma ekki. Þannig að þetta er stressandi.“
Hún segir ekki hægt að uppfylla þann samning sem bærinn býður henni til að gera upp skuldina: „Þeir vilja alveg semja við mig en þeir bjóða bara samning sem ég gæti aldrei staðið við. Þeir vilja að ég greiði eingreiðslu upp á næstum 900 þúsund og svo 75 þúsund kall á mánuði plús húsaleiguna. Þá væri eftir 30 þúsund og það sér hver maður að ég gæti ekki lifað af því.“ – DV hefur afrit af tölvupósti til konunnar frá Gjaldheimtunni sem staðfestir þessar tölur um tilboð Hafnarfjarðarbæjar um uppgjör skuldarinnar.
Þó að öryrkjar séu ekki öfundsverðir af sínum tekjum er ljóst að hagur konunnar mun stórskána þegar hún kemst á örorkubætur. „Ég hef verið óvinnufær í fjögur ár en hef samt fengið höfnun frá Tryggingastofnun um örorku. En núna er ég að komast í endurhæfingu og kemst þá á endurhæfingarlífeyri, sem er það sama og tímabundinn örorkuífeyrir. Við þetta munu launin hækka um 120 þúsund á mánuði og það munar mikið um þá upphæð fyrir manneskju í þeirri stöðu sem ég er í.“
Konan biðlar til Hafnarfjarðarbæjar um að sýna biðlund og sveigjanleika og fara ekki í útburðaraðgerðir. „Mér finnst það skilningsleysi að ekki sé hægt að bíða með útburð þar til ég fæ úrlausn minna mála í kerfinu. Ef þeir henda mér út þá eru þeir skyldugir að vista börnin mín hjá einhverjum öðrum. Þá þurfa börnin að vera vistuð hjá ókunnugum og það kostar líka fyrir utan að það getur haft slæmar afleiðingar að tvístra fjölskyldunni.“
Konan fékk bréf frá Hafnarfjarðarbæ þann 19. ágúst þar sem húsaleigusamningi við hana er rift vegna vanskila. Er henni þar skipað að rýma íbúðina. Fyrirsjáanlegt er að útburðarbeiðni frá bæjarfélaginu fari fyrir héraðsdóm sem mun úrskurða um útburð. Fulltrúar sýslumanns sjá síðan um að framkvæma útburðinn á konunni og börnum hennar.
Konan biður Hafnafjarðarbæ um að sýna mildi og biðlund þar til hún komin í betri aðstöðu til að uppfylla skulbindingar sínar.