Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er kominn í veikindaleyfi. Hann greindist með krabbamein í sumar og undirgekkst þegar í stað hormónameðferð og stefnt er að geislameðferð í október og nóvember. Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta.
Þar kemur fram að Kjartan Már muni þó áfram sinna ýmsum sérverkefnum en þau verði unnin í samráði við Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, formanns bæjarráðs og staðgengli bæjarstjóra. Halldóra Fríða mun taka við starfi Kjartans Más fram að áramótum en þá er ráðgert að hann muni snúa aftur til starfa.