Frétt birtist hjá Vísi í dag um þungan róður hjá fjölmiðlinum Samstöðinni en samkvæmt ársreikning hafi Samstöðin tapað 24 milljónum á síðasta ári og rekstrargjöld voru þreföld á við tekjurnar. Ritstjóri miðilsins, Gunnar Smári Egilsson, segir Vísi taka heldur djúpt í árinni.
Gunnar Smári segir á Facebook að ekki sé öll sagan sögð í frétt vísis. Framlög áskrifenda miðilsins fari inn í Alþýðufélagið sem á allt hlutafé í Samstöðinni. Alþýðufélagið leggur svo fé inn í reksturinn sem víkjandi lán og eins sé farið með stuðninginn sem miðillinn nýtur frá Sósíalistaflokknum. Þetta sé gert til að framlög flokks og áskrifenda verði að eign í Samstöðinni. Betri mynd gefi fjárstreymi rekstursins. Handbært fé hafi í ársbyrjun í fyrra verið tæplega 1,2 milljónir en við árslok verið rúmlega 5,4 milljónir sem þýði að Samstöðin hafi eytt minna en til hennar rann á árinu.
„Þetta er kostuleg framsetning. Róðurinn er alls ekkert þungur hjá Samstöðinni, ekki í þeirra merkingu að þar sé eitthvert ófjármagnað tap. Framlög áskrifenda fara inn í Alþýðufélagið, sem á 100% hlutafjár í Samstöðinni, sem leggur féð síðan inn sem víkjandi lán til Samstöðvarinnar og sama má segja um stuðning frá Sósíalistaflokknum, hann kemur inn sem lán sem síðan má breyta í hlutafé. Þetta er gert til þess að þessi framlög, bæði flokks og áskrifenda, verði að eign í Samstöðinni, að þau sem hafa lagt fé til uppbyggingar hennar eigi hana í framtíðinni.
Til að sjá hvort Samstöðin sé að brenna peningum umfram það sem hún aflar má lesa fjárstreymið. handbært fé í ársbyrjun 2023 var 1.164.291 kr. en var í árslok 5.454.998 kr. Það merkir að Samstöðin hafi eytt 4,3 m.kr. minna en runnu til hennar á þessu ári. Það gefur ágæta mynd af rekstrinum.“