Friðrik Erlingsson rithöfundur segir drengi eiga undir högg að sækja í hatrammri réttrúnaðarumræðu þar sem lítið sé gert úr þeim. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is. Friðrik skrifar:
„Sjálfsvirði drengja hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarin ár og áratugi, vegna linnulausrar og hatrammrar orðræðu um að allir karlmenn séu mögulegir ofbeldismenn og nauðgarar; að drengir eigi erfiðara með nám en stúlkur og séu varla læsir; að drengir séu upp til hópa fordómafullir, lifi og hrærist í eitraðri búningsklefamenningu og séu þar að auki staurblindir á forréttindi sín; að þeir séu afkvæmi feðraveldis sem muni gagnrýnislaust leiða þá til hálaunaðra starfa, þrátt fyrir skort þeirra á hæfileikum eða getu til nokkurs hlutar.“
Hann segir blasa við að þessi orðræða hafi grafalvarleg áhrif og sé drengjum mjög til ógagns:
„Skólakerfið hefur kokgleypt þessa réttrúnaðar orðræðu í gegnum Kynjafræði, sem sannarlega hljóta að vera kynleg fræði, því það er nánast útilokað að finna námsefnið til að kynna sér það. Drengur á unglingsaldri sagði mér fyrir nokkrum dögum að þegar búið væri að hamra á því nógu lengi hvað strákar væru ómögulegir á flestum sviðum, m.a. lélegir í námi, þá kipptu þeir sér ekki lengur upp við það að fá lélegar einkunnir. „Já, auðvitað fæ ég bara C,“ segja þeir. „Ég er líka bara strákur.““
Friðrik kallar þessa umræðu andlegt ofbeldi, þetta sé áróður sem dunið hafi á drengjum undanfarin ár og áratugi. Allt frá herferðinni „Tökum dæturnar með í vinnuna“ um aldamótin fram að sögulegri verðlaunaveitingu í Háteigsskóla þar sem enginn drengur fékk verðlaun fyrir námsárangur.
„…hafa drengir markvisst verið hundsaðir, niðurlægðir, hæddir og skammaðir í opinberri umræðu; metnaði þeirra, keppnisskapi og eðlislægum ákafa gefin ljót uppnefni – þar til snögglega núna undanfarið að maður gengur undir manns hönd að lýsa yfir áhyggjum sínum af slakri frammistöðu þeirra í námi, af fjölgun sjálfsvíga í hópi unglingsdrengja, já, menn hafa áhyggjur af vondri líðan þeirra, þunglyndi og lélegri sjálfsmynd og skilja bara ekki hvernig á þessu geti staðið,“ segir Friðrik.
Friðrik segir að þessi umræða hafi áhrif á efnistök barna- og unglingabókahöfunda og spyr hvort tími sé til kominn að hefja „drengjabókmenntir“ aftur til vegs og virðingar. Friðrik sendir rithöfundum eftirfarandi skilaboð:
„Svo má ég biðja höfunda barna- og unglingabóka að leggja sig betur fram um að skapa verk sem hjálpa lesanda að komast í gegnum dagana; segja sögur sem færa þeim örlitla von, kannski trú á lífið, hugrekki til að þrauka? Því ef höfundar ætla ekki að skrifa svoleiðis bækur, til hvers og fyrir hvern eru þeir þá að skrifa?“
Grein Friðriks má lesa hér.