fbpx
Miðvikudagur 11.september 2024
Fréttir

Ekkert bólar enn á ástsælli veggmynd – „Í svona sögufrægum húsum vill maður bara vanda sig og gera hlutina vel“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 11. september 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það var verið að sinna viðhaldi á húsinu og þurfti að heilmála vegginn upp á endingu til lengri tíma. Það voru gerðar ráðstafanir þannig að sé hægt að setja verkið upp,“ segir Jón Þór Gunnarsson forstjóri fasteignafélagsins Kaldalón í samtali við DV.

Kaldalón á fasteignina að Laugavegi 34 þar sem Herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar var rekin í hartnær öld. Mikla athygli vakti í sumar þegar málað var yfir einkennandi listaverk sem verið hafði á vesturvegg hússins í tæp 20 ár.

Um miðjan júlí varð uppi fótur og fit meðal íbúa í miðbænum þegar vegfarendur sáu málara gera sig kláran til að mála yfir veggmynd af mönnum með bindi og nafni verslunar Guðsteins. Myndinni af málaranum var meðal annars deilt í íbúahóp miðborgarinnar og mótmæltu íbúar gjörningnum og mættu einhverjir við húsið til að mótmæla.

Bindiskallarnir prýddu vegginn í tæp 20 ár, en lógó verslunarinnar lengur. Mynd: Facebook

Í viðtali við Vísi og RÚV þá sagði Sigríður Jónsdóttir, sem leigir húsnæðið sem verslun Guðsteins var í að „verið sé að sinna viðhaldi, og búið sé að gera ráðstafanir til að setja veggmyndina aftur upp. Æsingurinn hafi því verið byggður á misskilningi. „Það þarf að fara í viðhald á veggnum, þess vegna þarf að mála hann og fara yfir þetta. Síðan verður hún [veggmyndin] sett aftur upp.“

Tveir mánuðir liðnir og ekkert bólar á verkinu 

Tæpum tveimur mánuðum síðar bólar enn ekkert á að verkið verði sett upp aftur og var vakin athygli á því á laugardag í íbúahópi miðborgarinnar. „Var þetta ekki örugglega komið aftur eins og lofað var? Skulum ekki gleyma…,“ skrifar meðlimur við færsluna frá því í júlí og birtir með mynd af auðum húsveggnum.

Svona hefur veggurinn litið út síðan miðjan júlí. Í einhver skipti hefur verið málað á vegginn og hengdar upp auglýsingar, en það fjarlægt.
Mynd: DV

Í dag birti Viðar Eggertsson leikari og leikstjóri mynd af veggnum og spyr: „Mun vegglistaverkið koma aftur? Er þetta vísbending um það?“

Eins og sjá má er einhver búinn að mála mynd af einum manni og skrifa við „Kann einhver góðan hnút?“

Mynd: DV

Í samtali við DV í dag sagðist Sigríður ekki hafa lofað því í sumar að verkið yrði sett upp aftur, enda hefði hún ekkert um það að segja, enda ekki eigandi hússins og það væri eiganda að taka ákvörðun um hvað yrði. „Það eru til allar upplýsingar um myndina, bæði búið að taka myndir af henni og til stenslar til að setja upp aftur, en þetta er ekki mín ákvörðun.“

Segir eigendur vera að skoða heildstætt listaverk á fasteignaklasa

Eins og áður sagði segir talsmaður eiganda að gerðar hafi verið ráðstafanir til að setja verkið aftur upp. Listamaðurinn Harrý Jóhannsson segir í samtali við DV að hann hafi fengið tölvupóst frá eigendum um hvað hann tæki fyrir nýtt verk, hann hafi svarað og gefið upp verð en ekki heyrt neitt meira enn þá.

„Samhliða þessu erum við að skoða heilstætt listaverkin sem eru á húsinu. Þessi veggur sem er í vestur, hann hefur verið með Guðsteinsmerkið niðri í vinstra horninu sem hluti af stórum vegg. Það voru gerðar allar ráðstafanir til að setja verkið upp aftur, en eins og ég segi við erum að skoða alla hluti hússins og hvernig við viljum hafa þetta til framtíðar. Við viljum bara vanda okkur og gera þetta vel þannig að á húsinu verði áfram verk. Í svona sögufrægum húsum vill maður bara vanda sig og gera hlutina vel,“ segir Jón Þór Gunnarsson  forstjóri fasteignafélagsins Kaldalón sem er eigandi hússins.

Jón Þór Gunnarsson  forstjóri fasteignafélagsins Kaldalón

Jón Þór bendir á að á austurgaflinum er stórt verk og einnig í porti hússins, en Kaldalón á fasteignir sem tilheyra Laugavegi 32 og 34, bakhúsin þar sem tengjast Sandhótel og einnig hús fyrir aftan á Grettisgötu.

Kaldalón á einnig Laugaveg 32 þar sem þetta listaverk má finna.
Mynd: DV

Saga verslunar Guðsteins 

Herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar var í húsnæðinu í nær öld. Verslunin var stofnuð í bakhúsi við Grettisgötu árið 1918. Árið 1922 keypti Guðsteinn einlyft hús að Laugavegi 34 og flutti fyrirtæki sitt þangað. Nokkrum árum síðar var húsið rifið og nýtt hús reist árið 1929 og fluttist verslunin í nýju bygginguna í desember sama ár og starfaði þar óslitið þar í mars á þessu ári þegar verslunin flutti í Ármúla. 

Ytra byrðis framhússins við Laugaveg var friðað af menntamálaráðherra 19. maí 2011 með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin nær því ekki til vesturveggjarins þar sem listaverkið var. 

Listaverkið ekki nær 100 ára líkt og húsið

Einhvers misskilnings virðist gæta um að myndin hafi verið hundrað ára líkt og húsið sjálft, svo er ekki. Harry Jóhannsson myndlistarmaður setti verkið upp árið 2007 sem gjöf til Svövu Eyjólfsdóttur sem rak verslun Guðsteins og sá hann um viðhald á verkinu. 

Í samtali við DV segist Harry hafa verið búsettur í miðbænum á þessum tíma. 

„Það er mér ekkert hjartans mál þessi mynd. Ég gaf henni Svövu hjá Guðsteini þessa mynd á sínum tíma. Hún var svo dugleg í draktinni í öllum veðrum að mála yfir eitthvað á veggnum. Ég bjó á Laugavegi og þetta var svona hverfið manns. Hún [myndin] var búin að vera þarna ansi lengi og Dogma sem var í húsinu við hliðina á gerði boli með þessari mynd. Ég gerði ekki lógóið uppi, það var alltaf á veggnum, hafði verið mun lengur, ég bætti bara köllunum við,“ segir Harry. 

„Ég er ekki persónulega viðkvæmur fyrir þessu. Ég var graffari í gamla daga og maður gerði bara ráð fyrir að verkið væri mögulega horfið daginn eftir. Þetta er gaman, þetta var mjög einföld mynd en fólk hafði gaman af henni.“

Mynd: DV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Elliði segir of dýrt að lifa á Íslandi: „Staðan er óviðunandi – Það er kominn tími á aðgerðir“

Elliði segir of dýrt að lifa á Íslandi: „Staðan er óviðunandi – Það er kominn tími á aðgerðir“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Alvarleg vanskil aukist verulega – Vekur athygli í ljósi þess sem Ásgeir sagði

Alvarleg vanskil aukist verulega – Vekur athygli í ljósi þess sem Ásgeir sagði