Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, leigði heimili Tryggva Hjaltasonar, sérfræðings hjá CCP, til þess að skemmta sér á nýafstaðinni Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ásamt vinahópi sínum. Tryggvi kláraði á dögunum umdeilda skýrslu um stöðu drengja í skólakerfinu. Spurningamerki hefur verið sett við hæfi Tryggva til að vinna slíka skýrslu og þá vakti há þóknun, rúmlega 17 milljónir króna, sem hann fékk fyrir verkið mikla athygli.
Skýrslan var unnin af frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra en á síðari stigum í nánu samstarfi við ráðuneyti Áslaugar Örnu. Ráðherrarnir kynntu niðurstöður skýrslunnar saman á blaðamannafundi. Í svari við fyrirspurn DV segir aðstoðarmaður Áslaugar Örnu að hún hafi ekki komið að ráðningu Tryggva til verksins né samið við hann um kaup og kjör. Þá segir Tryggvi að af og frá sé að kunningsskapur hans og ráðherrans hafi gert það að verkum að hann var ráðin í hið gjöfula verkefni.
Skýrsla Tryggva, sem tók 18 mánuði í vinnslu, var kynnt þann 6. júní síðastliðinn á blaðamannafundi sem Ásmundur Einar og Áslaug Arna boðuðu sameiginlega til. Þar héldu þau bæði erindi ásamt Tryggva sjálfum og lýstu yfir áhyggjum sínum af stöðu mála og að gripið yrði til aðgerða í málaflokknum. Skýrslan vakti talsverða athygli enda ítarlega unnin, byggð á viðtölum við fjölmarga einstaklinga í skólakerfinu og aðra sérfræðinga. Niðurstaða skýrslunnar var einnig sláandi en hún benti á að staðu drengja í íslensku skólakerfi hefur verið að þróast í ranga átt undanfarin ár.
En skýrslan uppskar líka umtalsverða gagnrýni. Þannig þótti undarlegt að Tryggvi hefði verið ráðinn til verksins í ljósi þess að hann hefur hvorki menntun né sérþekkingu á málaflokknum. Heimildin fjallaði ítarlega um gagnrýnina á skýrslu Tryggva en í svari við fyrirspurn miðilsins um ráðninguna kom fram að hann hefði verið ráðinn „vegna víðtækrar reynslu sinnar af greiningu gagna og stefnumótun, hegðunarrannsóknum og afrekskerfum“.
Einnig þótti aðferðafræðin við vinnslu skýrslunnar ruglingsleg og vinnubrögðin ekki uppfylla vísindalegar kröfur. Þannig hafi verið lagt upp með fyrirfram gefna niðurstöðu og fundin til gögn sem styðja við þá fullyrðingu. Öfugt við það sem tíðkast í fræðilegum rannsóknum. Tryggvi hefur sjálfur svarað þeirri gagnrýni á þá leið að ráðuneytinu hafi verið ljóst að hann væri ekki að fara að vinna akademíska skýrslu.
Mestu hneykslunina vakti þó verðmiðinn á skýrslunni, 13.717.000 krónur í laun og að viðbættum virðisaukaskatti, sem gera rúmlega 17 milljónir króna . Fram hefur komið að Tryggvi vann að skýrslunni meðfram vinnu sinni hjá CCP undanfarna 18 mánuði sem þýddi að hann fékk 900 þúsund krónur á mánuði í laun fyrir aukavinnuna. Fannst mörgum það alltof hár verðmiði fyrir slíkt verkefni.
Áslaug Arna hefur um árabil verið reglulegur gestur á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum enda með margvísleg tengsl við eyjarnar fögru. Í ljósi umræðu um háa þóknun Tryggva Hjaltasonar við áðurnefnda skýrslu og þátttöku Áslaugar Örnu við að kynna hana þótti það skjóta skökku við að ráðherrann hafði afnot af húsi Tryggva við Ásaveg á nýafstaðinni hátíð. Bárust DV ábendingar um að ráðherrann dveldi þar í góðu yfirlæti á meðan í hátíðarhöldunum stóð en Tryggvi var á meðan í útilegu með fjölskyldu sína.
Í svörum við fyrirspurnum DV vísa Tryggvi og Áslaug Hulda Jónsdóttir, aðstoðarmaður Áslaugar Örnu, því alfarið á bug að húsaleigan og vinátta þeirra tengist því með nokkrum hætti því að Tryggvi hafi verið ráðinn í hið gjöfula verkefni.
Það hafi verið ráðuneyti Ásmundar Einars Daðasonar, menningar- og barnamálaráðherra, sem hafi sett vinnuna við skýrslu af stað árið 2022 og fengið Tryggva til verksins og samið við hann um tímaramma verkefnisins og þóknun. Ráðuneyti Áslaugar Örnu hafi ekkert haft með það að gera.
„Þegar vinnan var farinn í gang og ákveðið að reyna að kortleggja stöðu drengja í öllu menntakerfinu var hins vegar leitað til háskólaráðuneytisins og óskað eftir samtali við þau í að kortleggja stöðu drengja betur sem var vel tekið í. Fyrir það hefur hins vegar aldrei komið nein greiðsla til mín,“ segir Tryggvi í skriflegu svari til DV.
Áslaug Hulda – segir sömuleiðis að ekkert sé óeðlilegt við umrædd viðskipti ráðherrans. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Áslaug Arna leigir heimili Tryggva á Þjóðhátíð og í þetta sinn hafi hún gert það með hópi fólks. Varðandi tengsl þeirra segir Áslaug Hulda að Áslaug Arna og Tryggvi hafi þekkst um árabil úr flokkastarfi Sjálfstæðisflokksins.
Þegar Tryggvi var spurður út í hvort Áslaug Arna hefði greitt leigu fyrir húsið eða fengið það að láni endurgjaldslaust sagði Tryggvi:
„Við fjölskyldan eigum fjögur ung börn og erum vön að fara með þau í útilegu yfir verslunarmannahelgina og höfum gert það síðustu ár. Þá höfum við stundum valið að leigja út húsið okkar eins og margir Eyjamenn gera. Í þetta sinn var það til Áslaugar, í fyrra var Áslaug ekki að leigja af okkur. Ég vona að þú berir virðingu fyrir því að fjölskyldan vill ekki ræða leiguverðið, bæði af virðingu við leigjendur en okkur þykir það líka ekki vera fjölmiðlamál. Áslaug og hennar hópur greiddi meira en hópurinn í fyrra, enda eftirspurn meiri núna og teljum við það hafa verið sanngjarnt markaðsverð eins og við best þekkjum til hvernig svona leiga er vanalega yfir Þjóðhátíð.“