Maður sem ákærður var fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn þremur konum játaði sök í öllum ákæruliðum við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.
Þetta herma áreiðanlegar heimildir DV en þinghald í málinu er lokað.
Vísir greindi fyrst frá málinu og innihaldi ákæru. Maðurinn, sem er á fertugsaldri, var ákærður fyrir að hafa nauðgað þremur konum og taka upp myndefni af þeim án leyfis.
Í öllum brotunum notfærði maðurinn sé aðstöðu sína þegar konurnar voru sofnaðar og braut þá gegn þeim.
Elsta brotið er frá árinu 2020 en maðurinn er sagður hafa þá sýnt af sér lostugt athæfi og án samþykkis tekið upp myndband af sér stunda kynmök án vitneskju konunnar um upptökuna. Í framhaldinu hafi hann sýnt þriðja aðila upptökuna.
Fyrsta nauðgunin sem maðurinn var ákærður fyrir var framin í júní 2021. Hafði hann samræði við konu og notfærði sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum vímu eða svefndrunga. Hann tók upp myndskeið af brotinu. Auk þess tók hann upp annað myndband af konunni þar sem hún lá sofandi á nærbuxunum.
Hann var einnig ákærður fyrir að hafa nauðgað konu í Hafnarfirði í september 2021 með því að hafa samræði við hana og önnur kynferðismök með því að stinga fingrum í leggöng. Konan gat ekki brugðist við vegna vímu eða svefndrunga. Tók maðurinn háttsemi síma upp á farsíma.
Hann var einnig ákærður fyrir að hafa á seinni hluta ársins tekið tvær nektarmyndir af sömu konu þar sem hún lá sofandi. Myndirnar sýndu kynfæri hennar annars vegar og rass hins vegar.
Hann var sakaður um sömu háttsemi gagnvart annarri konu í Hafnarfirði í október 2021. Stakk hann fingri í leggöng konunnar og endaþarm auk þess að hafa samræði við hana meðan hún var ekki í ástandi til að geta brugðist við. Tók hann athæfið upp á farsíma sinn. Innan við mánuði síðar er hann sakaður um að hafa endurtekið ódæðið gagnvart sömu konu.
DV hefur ákæru málsins ekki undir höndum en samkvæmt frétt Vísis hljóðar bótakrafa kvennanna upp á sex milljónir króna fyrir hverja og eina. Þá er gerð krafa um 600 þúsund krónur í miskabætur fyrir hönd konunnar sem maðurinn tók nektarmyndir af í óleyfi. Nema því miskabótakröfur samtals 18.600.000 krónum.
Eftir er að fjalla um bótakröfur í málinu fyrir dómi en hvað varðar dóm um sekt mannsins og ákvörðun refsingar verður játning hans lögð til grundvallar.