fbpx
Föstudagur 30.ágúst 2024
Fréttir

Íbúum stendur ekki á sama um aukinn fjölda betlara í miðborginni – „Sitja dofin á götunum með betlispjöld, áreita vegfarendur og hlutir verið að hverfa“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 30. ágúst 2024 18:30

Mynd: DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Já þau eru líka að betla hér fyrir utan,“  segir vaktstjóri í Bónus á Laugavegi aðspurður um hvort útlendingar sem hreiðrað hafa um sig í svefnpokum í horni við verslunina sofi þar um nætur.

Þegar blaðamaður kom í verslunina um klukkan korter í átta að kvöldi fimmtudags voru maður og kona búin að koma sér fyrir í horninu í sitt hvorum svefnpokanum. Nokkrar mínútur yfir átta sat maðurinn þar einn og kallaði á ensku til erlendra ferðamanna sem gengu þar fram hjá og betlaði.  „Please,“ endurtók maðurinn. 

„Við megum ekkert gera, verslunin á bara fram að glerinu, stéttin er borgarinnar. Við erum búin að hringja margoft í lögregluna og borgina, sem gerir ekki neitt,“ segir vaktstjórinn.

Í dag klukkan 15 sat maðurinn í svefnpokanum fyrir utan, þó ekki í sama horni, því þar sat íslenskur karlmaður á miðjum aldri, svonefndur útigangsmaður. Erlendi karlmaðurinn sat hægra megin við innganginn inn í Kjörgarð, en þess má geta að þar á efri hæðum eru íbúðir. 

Mynd: DV

Hópur fólks búinn að koma sér fyrir við Krónuna

Athygli hefur verið vakin á fólki af erlendu bergi brotið sem sést sofa í svefnpokum fyrir utan Bónus á Laugavegi og einnig við Krónuna á Hallveigarstíg í íbúahópi miðbæjarins á Facebook. Margir þeirra sem tjá sig við færslurnar er fólk sem þekkir vel til og hefur búið og starfað í miðbænum um árabil. Eru flestir á því að um sé að ræða nýjan veruleika, erlent fólk sem kemur hingað og betlar, þá aðallega á Laugavegi. Allir eru meðvitaðir um að fjöldi einstaklinga, aðallega karlmenn, hafa verið heimilislausir í höfuðborginni lengi, svonefndir útigangsmenn, en þeir virðast ýmist eiga höfði að halla um nætur í gistiskýlum borgarinnar eða öðrum stöðum sem þeir þekkja til. Í það minnsta sést sjaldan til þeirra sofandi um nætur á götum miðborgarinnar. 

„Um 6 manns búnir að koma sér vel fyrir í svefnpokum fyrir nóttina hér á Hallveigarstíg við Iðnaðarmannahúsið,“ skrifar íbúi í miðbænum í íbúahópinn á Facebook um miðnætti og birtir mynd með. Segist hún hafa hringt á lögreglu, þar sem það fer líka að kólna á nóttunni, og lögreglan hafi komið á staðinn.

„Í þessu tilfelli voru þetta ekki Íslendingar heldur hópur sem kom hingað til lands fyrir um 2 vikum. Í morgun pökkuðu þau saman dýnunum og öðrum eigum í innkaupakerru en settu pappann sem þau lágu á í nótt á bakvið póstboxið svo sennilega koma þau aftur í kvöld,“  svarar konan athugasemd um hvort hún og þeir sem tjá sig við færslu hennar þurfi ekki að setja upp gleraugu því heimilislaust fólk sé á Íslandi.

Mynd: Facebook
Mynd: Facebook

„Það er enginn að halda því fram, hef oft séð íslendinga sofa hér og þar úti við, það er verið að tala um þennan hóp sem hefur verið mjög áberandi síðustu 3-4 vikur, sitja dofin á götunum með betlispjöld, áreita vegfarendur og hlutir verið að hverfa bæði við búðir, veitingastaði og heimili, hef sjálf þurft að biðja þau að færa hjólvagna sem verið er að safna verðmætum í úr porti hjá mér sem að jafnaði er læst en nú er lásinn allt í einu ónýtur, 3 karlmenn og kona, einn með endalausa hávaðamengun á harmonikku,“ svarar íbúi við Laugaveg.

Ein kona skrifar að síðastliðinn laugardag hafi hún séð fólk í svefnpokum að biðja um peninga á að minnsta kosti þremur stöðum við Laugaveg.

Íbúar og fyrirtækjaeigendur velta fyrir sér hvort um mansal geti verið að ræða

Annar íbúi segist ekki hafa orðið vör við fólk sofa á götum þar fyrr en fyrir 2-3 vikum og spyr hvort þetta sé „mögulega fólk sem er því miður sent á vegum glæpastarfsemi erlendis og er neytt til að koma hingað á vegum þeirra. Finnst svo skrítið að allt í einu er fólk sofandi fyrir utan Bónus á Laugavegi og líka þarna á Hallveigarstíg.“ Karlmaður tjáir sig við athugasemd hennar og segir leiðsögumenn í miðborginni sjá þetta kristaltært.

Fyrirtækjaeigandi við Laugaveg tekur í sama streng og segir: 

„Það er málið, þetta er sami hópur, sem var við Bónus og nú þarna og þau komu til landsins fyrir 2-3 vikum og beint út á götu. Ég persónulega hef meiri áhyggjur af því að þetta sé mansalsmál en glæpahringur.“

Karlmaður segir að morguninn eftir hafi hópurinn enn verið við Hallveigarstíg, „þrátt fyrir heimsókn lögreglu, Rúmenar sem hafa verið hérna í tvær vikur.“

Mynd: Facebook

Á fimmtudagskvöld skrifaði hann aðra athugasemd: „Jæja, búið að vísa þeim af tveimur stöðum í kvöld segir lögreglan, hér mæta þau aftur. Mér stendur ekki á sama vitandi að fjölskyldan mín gengur þarna framhjá á leið til vinnu og skóla annan morguninn í röð með þau sofandi þarna. Ekki hægt að tala við þau þar sem því er mætt með skæting og framandi tungumáli.“

Mynd: Facebook
Mynd: Facebook

Íslenskir útigangsmenn taldir til ama og bekkurinn fór – Erlendir betlarar komu í staðinn

Fyrir nokkru var fjallað um útigangsmenn með fíknivanda sem höfðu eignað sér bekk fyrir utan Bónus á Laugavegi og sögðu sumir íbúar ama af þeim, þar sem þeir sátu augljóslega undir áhrifum eða sofandi á bekknum. Mikið drasl var einnig í kringum bekkinn. Töldu margir að ekki væri hægt að bjóða íbúum og ferðamönnum miðbæjarins upp á þetta ástand, og hvað þá að hægt væri að senda börn ein í búðina. Rót vandans væri þó að ekki væri hugað eða hlúð að þessum hópi samfélagsins, enginn nefndi að við mennina sjálfa væri að sakast, þeir líkt og aðrir væru frjálsir ferða sinna um miðbæinn og ættu ekki í hús að venda meðan Gistiskýlið við Lindargötu er lokað. 

Sjá einnig: Bekkur við Bónus og notkun hans olli ágreiningi í íbúahópi miðborgarbúa – „Yndislegur maður þótt hann eigi við áfengis- og vímuefnavanda að stríða“

„Já bekkurinn fór en þá komu bara þessi í staðinn,“ segir vaktstjórinn í Bónus og á við erlenda fólkið sem situr og sefur fyrir utan verslunina á Laugavegi. Bendir hann á að bekkurinn og þeir sem hann sátu hafi skapað vanda, mikið rusl hafi verið í kringum bekkinn, þar á meðal sprautunálar. Eftir að bekkurinn fór hafi sá sóðaskapur horfið með. En erlenda fólkið sem nú situr og sefur á sama bletti er með pappaspjöld undir sér og svefnpokunum.

Í dag um kl. 14:30 sá ég þegar svefnpokamenn við Bónus á Laugavegi höfðu vaktaskipti! Sá sem mætti í seinnipartsvaktina tók við svefnpokanum og settist í hann, hinn tók bakpokann sinn og kvaddi,“ skrifar kona nokkur við færsluna í íbúahópi miðborgarinnar.

Spurningar hafa verið sendar með tölvupósti á formann Velferðarráðs reykjavíkur og verða þau svör birt þegar þau berast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Íslandsferð blaðamanns tók á sig drungalegan blæ – „Mér líður eins og ég sé að horfa á endalok mannkynsins“

Íslandsferð blaðamanns tók á sig drungalegan blæ – „Mér líður eins og ég sé að horfa á endalok mannkynsins“
Fréttir
Í gær

Pétur Jökull sakfelldur

Pétur Jökull sakfelldur
Fréttir
Í gær

Helgi Magnús ákveðinn: „Ég mun fara alla leið með þetta og gef ekkert eftir“

Helgi Magnús ákveðinn: „Ég mun fara alla leið með þetta og gef ekkert eftir“
Fréttir
Í gær

Björguðu manni úr sjálfheldu – Kaldur og skelkaður þegar hann kom niður

Björguðu manni úr sjálfheldu – Kaldur og skelkaður þegar hann kom niður